Stytttist í Akureyrarvöku
Akureyrarvaka verður haldin um þarnæstu helgi, 26.-27. ágúst. Þemað er að þessu sinni "leika, skoða, skapa" og er fólk hvatt til að gera einkennisstafi hátíðarinnar að forsíðumynd sinni á Facebook. Hægt er að velja um marga skrautlega bókstafi sem hver um sig lýsir sköpun af einhverju tagi. Kíktu á stafina HÉR og veldu einn til að vera forsíðumyndin þín.
Margir fastir liðir sem notið hafa ómældra vinsælda verða á dagskrá hátíðarinnar, svo sem Vísindasetrið í Rósenborg, Draugaslóðin í Innbænum, Lifandi Listagil og Rökkurró í Lystigarðinum. Af öðrum dagskrárliðum má nefna flug, siglingar, myndlist, ljóð, lúðrablástur, djass, dans, húllafjör, ljósmyndir og Friðarvöku í Gilinu.
Á laugardagskvöldið verður bein sjónvarps- og útvarpssending úr Gilinu í samstarfi RÚV, N4, Akureyrarstofu og Exton.
Byrjað verður á gamla góða útvarpsþættinum "Með grátt í vöngum" þegar Gestur Einar Jónasson spjallar og leikur rokk og ról eins og honum er einum lagið. Þátturinn verður sendur út frá Gilinu frá kl. 17 á Rás 2 og N4.
Klukkan 20.05 hefst á sviði bein sjónvarpssútsending á RÚV og N4 sem einnig verður útvarpað á Rás 2. Þá verður á dagskrá þátturinn "Gestir út um allt" undir stjórn Margrétar Blöndal og Felix Bergssonar sem njóta fulltingis hljómsveitar Hjörleifs Arnar Jónssonar þegar tekið verður á móti góðum gestum.
Friðarvaka í kirkjutröppum Akureyrarkirkju hefst svo þegar líður á þáttinn og tröppurnar fyllast af fallegum friðarkertum.
Dagskránni í Gilinu lýkur með Gilsöng sem Ingó Veðurguð stjórnar af sinni alkunnu snilld.