Stytting vinnuvikunnar dýrari en ráð var fyrir gert

Undirbúningur að byggingu tveggja nýrra heilsugæslustöðvar á Akureyri stóð yfir á liðu ári og var st…
Undirbúningur að byggingu tveggja nýrra heilsugæslustöðvar á Akureyri stóð yfir á liðu ári og var stöðin í Sunnuhlíð hönnuð í samstarfi við starfsfólk HSN. Mynd/MÞÞ

mth@vikubladid.is

Halli á rekstri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, HSN á liðnu ári nam 28,7 milljónum króna. Samningar um styttingu vinnuvikunnar reyndust dýrari en áætlanir gerðu ráð fyrir og nýir samræmdir stofnanasamningar heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni voru HSN kostnaðarsamir. Þá er viðvarandi vandi í rekstri hjúkrunardeilda. Þetta kom fram á ársfundi HSN sem haldinn var nýverið.

Nýtt fjármögnunarmódel gerir verulega hagræðingarkröfur á minni heilsugæslur HSN og kom fram á fundinum að erfiðlega hefur gengið að láta þær ganga upp og hagræða að fullu án þess að hafa veruleg áhrif á þjónustu. Verulega þarf að hagræða í rekstri HSN ef hann á að vera innan fjárlaga fyrir árið 2023 miðað við framlagt fjárlagafrumvarp.

Mikið álag á starfsfólki

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hafði margvíslegt áhrif á starfsemi stofnunarinnar á síðastliðnu ári. Starfsmenn og skjólstæðingar þurftu að lúta sóttvarnarreglum og takmarkanir voru á heimsóknum til skjóltstæðinga. Mikið álag hefur verið á starfsmenn stofnunarinnar tengt faraldrinum og ekki síst tengt bólusetningum og sýnatökum sem þeir sinntu samhliða hefðbundnum verkefnum. Heildarsamskipti í heilsugæslunni, ótengt kóvid 19 verkefnum jukust á milli ára og hið sama má segja um rafræn samskipti í gegnum Heilsuveru.

Viðhaldsverkefni og nýjar heilsugæslustöðvar

Á vegum HSN var unnið að fjölmörgum viðhaldsverkefnum á liðnu ári. Endurbygging stendur yfir á sjúkrahúsinu á Siglufirði og einnig er unnið að endurbótum á hjúkrunardeild á Sauðárkróki auk ýmiskonar minni framkvæmda sem lokið var við. Þá var unnið að hönnun á nýju hjúkrunarheimili á Húsavík og jarðvegsvinna boðin út og kláruð.

 Undirbúningur að byggingu tveggja nýrra heilsugæslustöðvar á Akureyri stóð yfir á liðu ári og var stöðin í Sunnuhlíð hönnuð í samstarfi við starfsfólk HSN. Einnig var haldið áfram undirbúningi við að byggja suðurstöðina á lóð við Þórunnarstræti, en það verkefni er í uppnámi vegna ágreinings ríkis og sveitarfélags um byggingu bílastæða.

Áskorun varðandi mönnun

Fram kom á ársfundi HSN að líkt og aðrar heilbrigðisstofnanir stendur hún frammi fyrir áskorun varðandi mönnun heilbrigðismenntaðs starfsfólks. Á flestum starfsstöðvum HSN hefur gegnið erfiðlega að ráða hjúkrunarfræðinga og er m.a. sérstaklega erfitt að fá hjúkrunarfræðinga í sumarafleysingar. Á ákveðnum starfseiningum hefur gengið ill að ráða í stöður heimilislækna.

 

 


Athugasemdir

Nýjast