Velferðarráðuneytið veitti nýlega styrki til kvenna með góðar viðskiptahugmyndir. Alls voru veittir styrkir til 36 verkefna og nam heildarstyrkupphæðin alls 26 milljónum króna.
22 styrkir fóru til kvenna á höfuðborgarsvæðinu en 14 til kvenna á landsbyggðinni og eru styrkirnir veittir til markaðssetningar, vöruþróunar, launakostnaðar og ennfremur til gerðar viðskiptaáætlana. Tveir styrkir komu til Akureyrar, Hugrún Ívarsdóttir, Strandgötu 43, fékk styrk að upphæð 810 þúsund krónur vegna verkefnisins; Þjóðararfur í hönnun og Ingibjörg Heiðdal, Stapasíðu 21b, fékk styrk að upphæð 400 þúsund krónur, vegna verkefnisins; Connect.
Styrkir voru til fjölbreyttra verkefna og má þar nefna styrk vegna uppbyggingu kanínuræktar, til þarabaða á Reykhólum, vegna baðvörulínu, bílabingós, framleiðslu á duftkerjum, til framleiðslu jurtakryddsalts úr íslensku salti, handtuftaðra motta, markaðssetningu prjónaferða, snúningslaka, færanlegs skjólveggur, heilsukodda og ostagerðar.
Hæstu styrkina hlutu Icelandic Cinema online, 2.000.000 vegna vöruþróunar verkefnisins Icelandic film locations og Tungumál og menning, 1.600.000 vegna verkefnisins Lifandi tungumálakennsla.