Styrkir til námsmanna sem strítt hafa við geðrænan vanda

Styrkþegar ÞÚ GETUR! 2016 hjá Grófin Geðverndarmiðstöð á Akureyri. 
Frá vinstri: Svana Sigríður Þor…
Styrkþegar ÞÚ GETUR! 2016 hjá Grófin Geðverndarmiðstöð á Akureyri. Frá vinstri: Svana Sigríður Þorvaldsdóttir með dóttur sína Magneu, Hrafn Gunnar Hreiðarsson og Gréta Baldvinsdóttir með soninn Baldvin Hrafnsson hjá sér.

Forvarna- og fræðslusjóðurinn ,,Þú getur!“ veitti nýlega námsstyrki til námsmanna sem glíma við geðræn veikindi. Hluta af þessum námsstyrkjum var úthlutað í samráði við Grófina gerðverndarmiðstöð á Akureyri sem auglýsti eftir umsóknum meðal sinna notenda.

Þrír námsmenn hlutu námsstyrki frá ,,Þú getur!“ í gegnum þetta ferli Grófarinnar, öll í námi við Háskólann á Akureyri: Þau Gréta Baldvinsdóttir fjölmiðlafræðinemi, Hrafn Gunnar Hreiðarsson lögfræðinemi og Svana S. Þorvaldsdóttir meistarnemi í menntunarfræðum.

„Um leið og Grófin óskar styrkþegum innilega til hamingju með námsstyrkina og góðs gengis í námi, er forvarna- og fræðslusjóðnum ,,Þú getur“ þakkað fyrir að styðja með svo áþreifanlegum hætti við fólk, sem glímt hefur við geðraskanir, til náms og um leið til bættra framtíðarmöguleika,“ segir í tilkynningu.

Markmið forvarna- og fræðslusjóðsins ,,Þú getur!” eru að vekja athygli á mikilvægi góðrar geðheilsu, vinna gegn fordómum og styrkja þá sem átt hafa við geðræn veikindi að stríða til náms. Fjármagn sjóðsins byggist á innkomu af styrktartónleikum þar sem helstu tónlistarmenn landsins gefa vinnu sína, sölu ,,Frelsismensins” og beinum framlögum fjölda einstaklinga og fyrirtækja. Formaður sjóðsins er dr. Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir.

Þeim sem vilja styrkja starf sjóðsins er bent á söfnunarreikning sjóðsins, 0336-26-1300, kt. 621008-0990.

Nýjast