Styrkir til atvinnumála kvenna
Nýverið úthlutaði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra 32 milljónum króna í styrki til atvinnumála kvenna. 33 verkefni alls hlutu styrk að þessu sinni. Styrkirnir eru í samræmi við niðurstöðu ráðgjafarnefndar sem mat umsóknirnar sem bárust, alls 219 talsins, um styrki til verkefna allsstaðar að af landinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá velferðarráðuneytinu.
Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrk má nefna fórnarfóðringu fyrir jarðhitaborholur, þróun vistvænna umbúða í stað plasts og ræktun stofnfruma með nýjum aðferðum. Þessi verkefni hlutu 3 milljónir króna hvert. Eins má nefna framleiðslu á lífrænni ánamaðkamold, gerð viðskiptaáætlunar fyrir útgáfu á pólsk- íslensku tímariti, og gerð viðskiptaáætlunar fyrir fræðslu- og fjölskylduspilið Fuglafár.
„Með styrkjum sem þessum er stuðlað að aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu en fjölmörg ný fyrirtæki hafa litið dagsins ljós sem skapa störf, samfélaginu til hagsbóta,“ segir í tilkynningunni.
Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað frá árinu 1991. Þeir eru ætlaðir konum sem vinna að góðum viðskiptahugmyndum og verkefnum. Skilyrði fyrir styrkjunum eru þau að verkefnin séu í eigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun. Starfandi fyrirtæki er ekki nauðsynleg forsenda þess að sækja um styrk, það er því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum. Hægt er að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar. /epe