Stuttmyndasmiðja fyrir yngstu kynslóðina

Stuttmyndasmiðja fyrir krakka á aldrinum 6-8 ára er hluti af Listasumri 2016. Hún stóð yfir í þrjá daga frá 25. til og með 27. júlí.
Smiðjan fór fram í sal Myndlistafélagsins þar sem krakkarnir unnu saman að því að skapa einfalt handrit að stuttmynd sem þau síðan leikstýrðu, léku og spunnu undir umsjá Freyju Reynisdóttur.
Þegar blaðamaður Vikudags leit við á fyrsta degi smiðjunnar voru krakkarnir í óða önn við að teikna myndir sem síðan voru notaðar í stuttmyndina ýmist landslag eða karakterar sem krakkarnir leika ekki sjálf.
„Börnin mynda saman hugmynd,- eða milljón hugmyndir eins og í þessu tilviki,“ sagði Freyja og hlær, aðspurð um hvað felist í stuttmyndasmiðju.
„Við gerum það sem þeim finnst skemmtilegast af þessu – hvað börnin koma sér saman um að gera, svo er þetta tekið upp.“
Þetta er í fyrsta sinn sem stuttmyndasmiðja af þessu tagi er haldin fyrir börn, en hver er hugmyndin á bak við verkefnið?
„Ég hef sjálf verið að vinna vídeóverk og þetta er líka svipað skapandi ferli og á sé stað í öðru verkefni sem ég er að sjá um í sumar, en þar erum við með fullorðna einstaklinga. Það er skapandi verkefni einstaklinga sem koma sér saman um einhverja eina hugmynd og framkvæma hana en hér er það ákveðið fyrirfram að loka útkoman verður stuttmynd,“ sagði Freyja.
-epe