Stutt verði við hugmyndir um millilandaflug til Akureyrar

Vinnuhópur atvinnuþróunarfélaga, ferðaþjónustuaðila og annarra hagsmunaaðila á Norðurlandi skorar á þingmenn og frambjóðendur að styðja framkomnar hugmyndir um millilandaflug á heilsársgrunni til Akureyrar frá Kaupmannahöfn og London.   

Beint flug allt árið frá þessum stórborgum til Norðurlands gefur ferðaheildsölum ný tækifæri þar sem hér er um að ræða NÝJAN áfangastað, áfangastað sem erlendar ferðaskrifstofur hafa sýnt mikinn áhuga á að kynna og selja. Með þessu flugi næst betri nýting á þeirri fjárfestingu sem þegar liggur í innviðum samfélagsins á svæðinu og fjölgun heilsársstarfa. Millilandaflug á heilsársgrundvelli eykur lífsgæði íbúa á svæðinu og kemur til með að skapa ferðaþjónustunni á Norður- og Austurlandi algjörlega nýjan rekstrargrundvöll, efla arðsemi, nýsköpun og þróun í ferðaþjónustu og hafa gríðarlega jákvæða áhrif á aðra atvinnustarfsemi á landsbyggðinni sérstaklega yfir vetrartímann. Margfeldisáhrif af ferðaþjónustu eru mikil,  þar með taldar gjaldeyristekjur og því getur þessi aðgerð ein og sér stuðlað að verulegri atvinnubyggingu á áhrifasvæðum millilandaflugsins. Að auki kemur reglubundið millilandaflug til með að gefa útflutningsfyrirtækjum ný tækifæri til fragtflutninga og lækkunar á flutningskostnaði sem hefur jákvæð áhrif á arðsemi fyrirtækjanna sem eykur jafnframt afhendingaröryggi.

Lenging Akureyrarflugvallar og stækkun flugstöðvarinnar skiptir sköpum til að þessi áform gangi eftir vegna aukinnar umferðar farþega um Akureyrarflugvöll.

Nýjast