Straumurinn liggur norður í vetrarfríinu

Vel ætti að viðra fyrir gönguskíði í Kjarnaskógi í vetrarfríinu en skógurinn hefur verið vinsæll til…
Vel ætti að viðra fyrir gönguskíði í Kjarnaskógi í vetrarfríinu en skógurinn hefur verið vinsæll til útivistar í vetur. Ljósmynd/María H. Tryggvadóttir.

Von er á miklum fjölda gesta norður til Akureyrar í dag og um helgina þar sem vetrarfrí er í mörgum grunnskólum landsins. Nær allir aðgöngumiðar að skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli næstu daga eru að seljast upp en mikil aðsókn hefur verið í fjallið undanfarnar helgar. Vegna fjöldatakmarkana má aðeins taka við fjórðungi þess fjölda sem venja er að taka á móti á skíðasvæðinu.

María H. Tryggvadóttir, verkefnisstjóri ferðamála hjá Akureyrarstofu, segir að fólk sem ætlar að leggja leið sína norður ætti að skipuleggja sig vel.

„Eftir því sem ég kemst næst þá er vel bókað á flestum stöðum og ég heyri að það er mikil ásókn í að komast á skíði. Fólk ætti því að hafa snarar hendur og undirbúa allt sem allra best,“ segir María. „Einnig má búast við röðum í Sundlaug Akureyrar en þá vil ég minna á sundlaugar í næsta nágrenni við bæinn, svo sem á Þelamörk og Hrafnagili. Það ætti líka að vera hægur leikur að fara á gönguskíði í Kjarnaskógi, Naustaborgum eða á Hömrum, já eða í Hlíðarfjalli,“ segir María.

Þá segir hún vert að vekja athygli á því að skoða náttúruperlur í nágrannasveitarfélögunum, kíkja á Goðafoss, fara á Mývatn og svo má fara í böðin á Ársskógsströnd, í Mývatnssveit eða á Húsavík.

„Við biðlum bara til fólks að fara gætilega, veiran er ennþá á kreiki í samfélaginu og við þurfum að virða allar sóttvarnareglur og samkomutakmarkanir í hvívetna,“ segir María.


Nýjast