Strætóbílstjórar á Akureyri lögðu niður akstur í morgun í einn og hálfan tíma, eða frá klukkan 8:30 til 10:00 í mótmælaskyni. Bílstjórarnir eru óánægðir með þrifnaðarleysi á salerni og kaffiaðstöðunni þar sem Nætursalan var til húsa en þar hafa bílstjórarnir aðstöðu.
Sigurður Gíslason, öryggistrúnaðarmaður hjá SVA, segir bílstjóra hjá Strætisvögnum Akureyrar hafa fengið sig fullsaddan af þrifnaðarleysi á aðstöðunni og þá sérstaklega á salerninu. Hann bendir á að byrjað hafi að leka á salerninu fyrir fjórum árum og þeir hafi þrýst á bæjaryfirvöld um lagfæra skemmdirnar að fullu. Ekkert hafi hins vegar verið gert.
Þá hafi hvorki verið þrifið á salerninu né kaffistofunni í þrjár vikur.
„Við höfum staðið í stappi við bæjaryfirvöld í öll þess ár og okkur finnst óskiljanlegt að það sé ekki á okkur hlustað. Alveg sama hvað við kvörtum mikið þá er ekkert gert. Við ákváðum þá að grípa til þessa ráðs,“ segir Sigurður.
Akstur er nú kominn á fullt og segir Sigurður að byrjað sé að þrífa. Hann á ekki á von á því að bílstjórarnir leggi niður störf á ný vegna málsins.