Stelpurnar í Þór/KA töpuðu stórt fyrir Valsstúlkum í kvöld er liðin áttust við í 5. umferð Pepsi- deildar kvenna í knattspyrnu. Lokatölur á Akureyrarvelli urðu 7-2 sigur Valsstúlkna sem mættu gríðarlega öflugar til leiks. Fyrsta mark leiksins kom eftir aðeins sex mínútna leik og það gerði Rakel Logadóttir fyrir Valsstúlkur með skoti inn í teig sem markvörður Þórs/KA var nálægt því að verja.
Aðeins fimm mínútum síðar eða á 11. mínútu, skoruðu gestirnir sitt annað mark og þar var að verki fyrirliði Vals, Katrín Jónsdóttir, er hún fékk boltann fyrir lappirnar eftir hornspyrnu og skoraði með ágætu skoti. Staðan orðin 2-0 fyrir Valsstúlkur.
Á 16. mínútu leiksins fengu heimastúlkur sitt fyrsta færi í leiknum þegar Vesna Smiljkovic átti góða sendingu fyrir markið og Elva Friðjónsdóttir var mætt inn í teiginn en góður skalli hennar fór rétt framhjá markinu. Valsstúlkur bættu svo við sínu þriðja marki á 21. mínútu. Rakel Logadóttir skoraði þá sitt annað mark í leiknum er hún fékk boltann fyrir utan teig og þrumaði knettinum í netið.
Á 27. mínútu bættu gestirnir við fjórða marki sínu. Valsstúlkur komu þá upp hægri vænginn og Dóra María Lárusdóttir áttu sendingu fyrir markið sem stefndi beint á Berglindi Magnúsdóttir markvörð Þórs/KA, sem var nýkominn inn á sem varamaður, en eitthvað misreiknaði Berglind boltann því hún náði ekki að grípa hann og boltinn lak í netið. Einkar klaufalegt mark og staðan orðin 4-0 fyrir gestina og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Valsstúlkur byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og pressuðu heimastúlkur stíft. Þór/KA varð fyrir áfalli á 54. mínútu þegar Mateja Zver var borinn útaf eftir slæma tæklingu frá einni Valsstúlkunni. Heimastúlkur voru þó ekki á því að leggja árar í bát. Á 66. mínútu náðu þær að klóra í bakkann þegar Rakel Hönnudóttir skoraði með góðum skalla eftir hornspyrnu. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Vesna Smiljkovic með góðu skoti langt fyrir utan teig eftir að markvörður Vals hafði farið ansi langt út úr markinu til þess að koma boltanum í burtu, en skaut boltanum beint á Vesnu sem þakkaði fyrir sig með glæsilegu marki. Staðan orðin 4-2.
Smá vonar neisti kviknaði við þetta hjá heimastúlkum en þær vonir stóðu stutt yfir því Valsstúlkur svöruðu með þremur mörkum frá þeim Dóru Maríu Lárusdóttir ( 78.mín ), Hallberu Guðný Gísladóttur ( 85.mín ) og Helgu Sjöfn Jóhannesdóttur ( 94.mín ).
Lokatölur því 7-2 sigur Vals, sem voru hreinlega einu númeri of stórar fyrir Þór/KA að þessu sinni. Eftir leikinn hefur Þór/KA sjö stig og er í fimmta sæti deildarinnar.