Bandaríska sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslufyrirtækið The Go Big Project var við tökur á Húsavík í gær 3. maí. Fyrirtækið er að framleiða 10 þátta sjónvarpsseríu fyrir sjónvarpsstöðina InsightTV. Dagskrain.is spurði Carlos Vargas framleiðanda þáttanna út í verkefnið: „Við erum nú að skoða marga staði í heiminum með það fyrir augum að taka upp þættina okkar og nú erum við á Íslandi við tökur á fyrstu 10 þátta sjónvarpsseríunni,“ sagði hann. Þættirnir sem hér um ræðir munu heita „Extreme Crossings: The Wilson Project“. Þættirnir verða teknir til sýningar síðar á þessu ári og verða sendir út til yfir 100 milljón heimila vítt og breitt um Evrópu, Rússland, Indland og víðar í Asíu.
Í þáttunum verður fylgst með Bandaríkjamanninum Mike Wilson sem er í dag ein skærasta stjarnan í heimi áhættuíþrótta (e. extreme sport). Í þáttunum mun Wilson sýna listir sínar í ýmsum greinum við erfiðar og framandi aðstæður s.s. kajakróður í sjó, fallhlífastökk, utanbrautar skíði og ýmislegt fleira.
Framleiðendur þáttanna fréttu af Könnunarsögusafninu á Húsavík þegar þeir voru komnir til Íslands. Þeim fannst það áhugavert og gerðu sér leið til Húsavíkur til að kvikmynda það í bak og fyrir. Stjarna þáttanna, Mike Wilson skellti sér m.a. í geimbúning sem er hluti af sýningu safnsins. Þá var rætt við Örlyg Hnefil Örlygsson og föður hans Örlyg Hnefil Jónsson, en þeir reka safnið. „Þetta var mikil taka, þeir voru að taka upp efni í næstum því 4 tíma hjá okkur,“ sagði Örlygur Hnefill yngri í samtali við dagskrain.is. Hann sagði jafnframt að þættirnir hefðu ákveðið könnuða þema og safnið félli vel inn í þá nálgun. „Þeir voru mjög forvitnir um sögu Vilborgar Örnu [Gissurardóttur, innsk. blm.] pólfara og ætluðu að reyna hafa upp á henni,“ sagði Örlygur. Það er því ljóst að Könnunarsögusafnið á Húsavík mun nema land víða um heim þegar þættirnir fara í dreifingu.
Til stóð að tekið yrði upp innslag fyrir þættina með Viking Heliskiing sem er fyrirtæki sem gert er út frá Ólafsfirði og bíður upp á ævintýraskíðaferðir þar sem flogið er með skíðafólk til fjalla í þyrlu. Veður setti hins vegar strik í reikninginn, ekki var hægt að fljúga í dag svo Bandaríkjamennirnir héldu áfram leið sinni og ætlunin var að halda tökum áfram á suðvesturhorni landsins. Nánar verður fjallað um málið í Skarpi sem kemur út á morgun. /epe.
-Skarpur, 5. maí
Hér að neðan má sjá Mike Wilson sveifla sér fram af klettum: