Hann var ekki spennandi leikur Þórs/KA og ÍR í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu sem fram fór í Boganum í kvöld. Yfirburðir heimastúlkna voru algjörir og höfðu þær þegar yfir lauk skorað 11 mörk gegn engu gestanna. Það tók Þór/KA ekki nema 45 sekúndur að skora og var þar að verki Vesna Smiljkovic eftir fyrirgjöf frá Rakel Hönnudóttur.
Næstu mínútur vörðust ÍR-stúlkur vel en þær urðu fyrir miklu áfalli á 17 mínútu þegar varnarmaður þeirra var rekinn af velli með rautt spjald fyrir að fella Mateju Zver sem var komin ein í gegnum vörn gestanna. Á 25. mínútu skoraði Rakel Hönnudóttir mark eftir sendingu frá Vesnu og þær tvær léku svo nánast nákvæmlega sama leik á 34. mínútu þegar Rakel skoraði sitt annað mark. Á 39. mínútu bætti Mateja Zver við marki eftir aukaspyrnu frá Bojönu Besic og á 47. mín. skoraði Mateja sitt annað mark eftir hornspyrnu Vesnu. Staðan í hálfleik 5-0.
Þór/KA slakaði síður en svo á klónni í síðari hálfleik enda stolt liðsins illa sært eftir slæmt tap í fyrsta leik fyrir Breiðabliki. Mateja skoraði sitt þriðja mark á 51. mínútu með vippu utan teigs yfir markvörð ÍR-inga sem hafði hætt sér of framarlega og Rakel Hönnudóttir skoraði sitt þriðja mark á 54. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Rakel Hinriksdóttur. Nokkru síðar eða á 75. mínútu bætti Rakel Hönnudóttir svo við fjórða marki sínu og áttunda marki Þórs/KA með skalla eftir fyrirgjöf Elvu Friðjónsdóttur. Elva var svo sjálf á ferðinni mínútu síðar með níunda markið eftir sendingu frá Mateju Zver sem hefði einnig auðveldlega getað skorað sjálf.
Undir lokin komu svo tvö mörk, hið fyrra skoraði Arna Sif Ásgrímsdóttir með skalla eftir fyrirgjöf Vesnu og Rakel Óla Sigmundsdóttir skoraði ellefta mark Þórs/KA eftir sendingu frá Rakel Hönnudóttur.
Eins og tölurnar gefa til kynna var leikurinn mjög ójafn og mótstaðan fyrir Þór/KA lítil. Það verður hins vegar að taka fram að þær spiluðu eins og sannkallað stórlið í kvöld, lið sem valdið hefur og er skemmst að minnast þess að þær voru sjálfar fyrir einungis tveimur til þremur árum í sömu sporum og ÍR í kvöld og breytingin á liðinu því virkilega ánægjuleg.