Stórsigur Þórs gegn Víkingi

Þórsarar skoruðu sex mörk á Þórsvelli í dag er liðið lagði Víking 6:1 að velli í tólftu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Mikið var undir hjá báðum liðum í dag sem eru að berjast í neðri hluta deildarinnar og stigin þrjú afar dýrmæt fyrir Þórsara sem slíta sig ennfrekar frá fallsæti með sigrinum. Heimamenn höfðu 3:0 yfir í hálfleik eftir tvö mörk frá David Disztl og marki frá Ármanni Pétri Ævarssyni.

Viktor Jónsson minnkaði muninn fyrir Víking strax í seinni hálfleik en Sveinn Elías Jónsson, Clarke Keltie og Ragnar Haukur Haukss skoruðu sitt hvort markið fyrir Þór seinni hálfleik og öruggur sigur heimamanna í höfn.

Með sigrinum er Þór komið með 14 stig í níunda sæti deildarinnar, en Víkingar eru í slæmum málum í ellefta og næstneðsta sæti með sjö stig.

Leikurinn á Þórsvelli fór fjörlega af stað og  eftir fimm mínútna leik fékk David Disztl fékk fyrsta færi leiksins er boltinn datt fyrir lappirnar á honum í vítateignum en ágætis skot hans var vel varið af Magnúsi Þormari í marki Víkings.

 Þórsarar voru búnir að vera nokkuð sprækir þessar fyrstu mínútur og voru líklegri til þess að skora.Ármann Pétur Ævarsson skoraði afar skondið mark þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum. Víkingar skölluðu boltanum út úr teignum en ekki það langt að Ármann Pétur komst inn í skallann og skallaði boltanum af vítateigslínunni í netið. Vel gert hjá Manna og heimamenn komnir 1:0 yfir.

Þór komst svo í 2:0 á 35. mínútu og þar var að verki David Disztl. Gísli Páll Helgason átti sendingu frá hægri kanti inn í teig sem fór á kollinn á Sveini Elíasi Jónssyni sem framlengdi knöttinn á kollinn á Disztl sem gat lítið annað en skallað boltann í netið af stuttu færi. 

Disztl var svo aftur á ferðinni aðeins þremur mínútum síðar. Ingi Freyr Hilmarsson átti þá sendingu fyrir markið vinstra megin sem varnarmenn Víkings misstu í gegnum sig og David Disztl fékk boltann óvaldaður og gott skot hans fór í fjærhornið. Staðan 3:0 og Þórsarar í afar góðum málum á heimavelli.Víkingar virtus ekki vera að sýna sig mikið fyrir nýjum þjálfara og lítið fyrir Bjarnólf Lárusson, nýráðins þjálfara Víkings, að gleðjast yfir þessar fyrstu 45 mínútur.

Staðan 3:0 í hálfleik.Víkingar fengu óskabyrjun í seinni hálfleik er Viktor Jónsson skoraði á 46. mínútu. Sending kom frá hægri kanti sem Magnús Páll Gunnarsson missti af og boltinn barst til Viktors sem var einn á móti markmanni og skoraði örugglega í hægra hornið. Staðan 3:1 og Víkingar á lífi í leiknum.

Þórsarar voru hins vegar ekki lengi að svara. Sveinn Elías Jónsson skallaði boltann í netið á 54. mínútu eftir að David Disztl hafði framlengt hornspyrnu Inga Freys Hilmarssonar inn í teig. Staðan 4:1 á Þórsvelli.Markið kom sem rothögg fyrir Víkinga sem höfðu komið sér inn í leikinn á ný og verið frískir framan af seinni hálfleik. Gestirnir duttu heldur niður eftir þetta og heimamenn sóttu á.

Sveinn Ellías Jónsson, Clarke Keltie og Ragnar Haukur Hauksson bættu við mörkum í síðari hálfleik fyrir Þór og stórsigur staðreynd hjá heimamönnum.

Lokatölur, 6:1.

Nýjast