Akureyri náði hins vegar ekki að nýta sér stórleik Sveinbjörns í markinu og FH-ingar fögnuðu sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í 19 ár og eru einfaldlega besta lið landsins í dag.
Fyrri hálfleikurinn var hníjafn en FH-ingar voru þó ávallt skrefinu á undan. FH skoraði fyrstu tvö mörkin en forystan var aldrei meiri en tvö mörk. Það var einum manni að þakka, Sveinbirni Péturssyni markverði Akureyrar, sem átti hreint út sagt magnaðan fyrri hálfleik og varði 15 skot og hélt Akureyringum á floti.
Akureyri komst yfir í stöðunni 8:7 um miðjan hálfleikinn en FH komst yfir að nýju 11:8. FH-ingar áttu betri endasprett og náðu þriggja marka forystu þegar skammt var til leikhlés, þar sem Ólafur Guðmundsson var í miklu ham en hann skoraði 5 mörk í fyrri hálfleik og dró vagninn í sóknarleik heimamanna.
Varnarleikur beggja liða var góður en Akureyringar lentu í miklum brottrekstra vandræðum og við það opnaðist vörn gestanna.
Staðan í hálfleik, 13:11, FH í vil.
FH komst þremur mörkum yfir snemma í fyrri hálfleik, 15:12, en Akureyringar hleyptu þeim ekki of langt fram úr sér og jöfnuðu metin í 17:17 þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og allt í járnum.
FH náði þriggja marka forystu á ný í stöðunni, 21:18, en þá komu þrjú mörk í röð hjá Akureyri sem jafnaði í 21:21 þegar níu mínútur voru eftir og næstu mínútur stál í stál. Heimir Örn Árnason tók sóknarleik Akureyrar í sínar hendur en hann skoraði fimm mörk í leiknum, öll í seinni hálfleik, og skoraði góð mörk á mikilvægum augnablikum.
Atli Rúnar Steinþórsson skoraði tvö mörk í röð fyrir FH þegar skammt var eftir og staðan 25:23. Daníel Einarsson fékk tækifæri á að minnka muninn í eitt mark þegar ein hálf mínúta var eftir en Daníel Freyr varði í markinu og Ólafur Gústafsson kom FH í þriggja marka forystu, 26:23, og staðan vænleg fyrir heimamenn.
FH-ingar létu ekki forystuna af hendi og Ásbjörn Friðriksson skoraði síðasta mark leiksins og fjögurra marka sigur FH í höfn.
Lokatölur, 28:24.
Mörk Akureyrar: Guðmundur Hólmar Helgason 8, Heimir Örn Árnason 5, Bjarni Fritzson 4, Oddur Gretarsson 4 (1 úr víti), Daníel Einarsson 1, Hreinn Þór Hauksson 1, Hörður Fannar Sigþórsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 20.Mörk FH: Ólafur Guðmundsson 8, Ásbjörn Friðriksson 7 (2 úr víti), Baldvin Þorsteinsson 4, Atli Rúnar Steinþórsson 4, Ólafur Gústafsson 3, Halldór Guðjónsson 1, Örn Ingi Bjarkarson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 11, Pálmar Pétursson 6.