Stórhuga framkvæmdir á íþróttasvæðinu á Þórshöfn

Flottur hópur sem tók þátt í Langanesþrautinni í fyrra og safnaði um hálfri milljón með áheitum. Myn…
Flottur hópur sem tók þátt í Langanesþrautinni í fyrra og safnaði um hálfri milljón með áheitum. Myndir aðsendar.

Bryggjudagar á Þórshöfn fara fram í júlí með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna frá fimmtudegi 14. júlí til sunnudags 17. júlí. Langanesþrautin er einn liður hátíðarinnar en hún er nú haldin í annað sinn. Þátttakendur skokka eða hjóla frá Fonti til Þórshafnar og safna um leið áheitum til styrktar metnaðarfullri uppbygginu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu.

Ungmennafélag Langnesinga (UMFL) stendur nú annað árið í röð fyrir Langanesþrautinni, þar sem hjólað og skokkað er i liðum frá Fonti til Þórshafnar, um 50 km leið. Þetta er gert til að safna áheitum og er partur af metnaðarfullu verkefni félagsins í samstarfi við sveitarfélagið Langanesbyggð þar sem byggja á upp betri frjálsíþrótta aðstöðu utanhúss.

LAnganesþraut 1

„Að hafa góða íþróttaaðstöðu skiptir öll félög miklu máli og ekki síður svona lítil félög út á landi sem þurfa að keyra langar vegalengdir í næstu góðu íþróttaaðstöðu. Öll vitum við hvað öflugt íþróttastarf hefur mikið forvarnargildi og byggir upp sjálfstæða og flotta einstaklinga. Svona góð og flott íþróttaaðstaða eins og við í UMFL og Langanesbyggð erum að vinna að hjálpar því mjög mikið við þá vinnu og gerir starfið okkar faglegra og betra,“ segir Valgerður Sæmundsdóttir formaður UMFL.

Félagið hefur þegar safnað uppí hluta kostnaðar og búið er að gera kastbraut og steypa kasthring fyrir kúluvarp og kringlu. Valgerður segir að aðstaðan sé nú þegar farin að nýtast fyrir iðkendur i sumar en vonir standa til að gera 100 m æfinga hlaupabraut. "Nú þegar erum við búin með fyrsta hlutann og það gerir helling fyrir okkar starf. Við höldum ótrauð áfram. Verkefnið er vissulega stór biti og mikill kostnaður fyrir lítið félag þó sveitarfélagið geri þetta i samstarfi við okkur. Þetta áheitahjól/hlaup er einn liður í því að safna upp í þann kostnað. Við finnum mjög mikinn meðbyr með okkar störfum frá þorpsbúum sem og öðrum og erum virkilega þakklát fyrir það" segir Valgerður en góð þátttaka var í Langanesþrautinni síðasta sumar. Hún er haldin föstudaginn 15 júlí og startar þar með Bryggjudögum á Þórshöfn, sem standa yfir þá helgi með fjölbreyttri dagskrá.

„Við lítum á þessa uppbyggingu sem ákveðna byggðaaðgerð, samfélagið okkar er ekki stórt en það er gott, næg atvinna og skemmtilegt mannlíf. Íþróttastarf barna er mikilvægur þáttur í búsetu á staðnum auk þess að vera góð forvörn, og Ungmennafélagið ætlar sér að efla það með öllum mögulegum leiðum,“ sagði Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, stjórnarmaður í UMFL og skipuleggjandi Langanesþrautarinnar.

Langanesþraut 2

Ungmennafélagið hefur eyrnamerkt alla dósasöfnun til þriggja ára í verkefnið og ýmis velunnarar lagt því lið með öðrum hætti.

Lið sem vilja skrá sig í Langanesþrautina geta sent póst á umflanganes@gmail.com og þeir sem vilja heita á liðin og leggja þessu flotta verkefni lið þá er söfnunarreikninur fyrir hlaupabrautinni 0133-15-000639, kt: 570795-2609.


Athugasemdir

Nýjast