Stórhátíð á Akureyri um helgina í tilefni sjómannadagsins

Blásið verður til stórhátíðar á Akureyri  í tilefni sjómannadagsins í ár. Sjómannadagurinn sjálfur, sunnudaginn 5. júní,  ber hæst en hann hefst með sjómannamessu í bæði Glerárkirkju og Akureyrarkirkju.

Hátíðardagskráin fer fram við Menningarhúsið Hof, Torfunefsbryggju og Torfunef – nýjustu bryggju Akureyrar. Þar munu sjómenn og landkrabbar etja kappi í sígildum koddaslag og óhefðbundnum kappróðri og þyrla Landhelgisgæslunnar sýnir björgun úr sjó. 

Söngvaborg með þeim Maríu söngkonu og Björgvini Frans leikara taka lagið með yngstu kynslóðinni og Wally trúður kemur í heimsókn.  Friðrik Dór og Jón Jónsson stíga á stokk og taka nokkur lög. Lúðrasveit Akureyrar og Kvennakór Akureyrar  koma einnig fram auk  nemenda frá Steps Dancecenter sem sýna atriði úr danssýningu þeirra Úr bók í Bíó.

Börnin fá tækifæri til að leika sér í hoppikastala og boðið verður uppá grillaðar pylsur um leið og sígild sjómannalög hljóma um allan fjörð þegar harmonikkuleikarar þenja nikkurnar við bryggjuna.

Eyfirðingum og gestum þeirra verður boðið að sigla með Húna II, Ambassador og Hafsúlunni frá Torfunefsbryggju að Sandgerðisbót og þaðan verður hópsigling smábáta tilbaka að Torfunefsbryggjunni. Auk þess má nefna að mótorhjólaklúbburinn Tían verður með hópakstur að Hofi til heiðurs sjómönnum.

Álftagerðisbræðurnir Óskar og Pétur Péturssynir syngja af sinni alkunnu snilld um borð í Húna II að kvöldi föstudags og á laugardeginum kynnir Siglingarklúbburinn Nökkvi, ásamt skútueigendum í firðinum, siglingar og áhugasömum gestum er velkomið að prófa kappróðrabát.

Hátíðin í ár er samsett úr tveimur hátíðum sem haldnar hafa verið síðustu ár; Sjómannadeginum og Einum á báti. Það er Viðburðastofa Norðurlands sem heldur um taumana í ár í góðri samvinnu við aðstandendur hátíðanna tveggja.

Það er því skemmtilegur sjómannadagur á Akureyri framundan þar sem landkrabbar og sjómenn ásamt fjölskyldum þeirra gleðjast saman.

Vert er að vekja athygli á því að settur verður upp léttur og skemmtilegur markaður á laugardeginum á Ráðhústorgi og eru áhugasamir sem hafa eitthvað forvitnilegt, bragðgott og skemmtilegt að selja hvattir til að hafa samband við Viðburðarstofu Norðurlands info@vidburdarstofa.is.

 

Nýjast