Stórfínn Gauragangur á Melum

„Þó að verkið sé orðið 30 ára gamalt á það enn erindi við áhorfendur, jafnt unga sem aldna, og stórs…
„Þó að verkið sé orðið 30 ára gamalt á það enn erindi við áhorfendur, jafnt unga sem aldna, og stórskemmtileg útfrærsla Leikfélags Hörgdæla á þroskasögu hins óstýriláta Orms Óðinssonar er kvöldstund sem svíkur engan,“ segir í umfjöllun.

Það fylgir því alltaf spenningur að fara í leikhús og það var ekkert öðruvísi þetta kvöld þegar við komum á Mela í Hörgárdal til að sjá hið sígilda ungmennaleikrit Gauragang eftir Ólaf Hauk Símonarson. Uppsetninginn er í höndum Leikfélags Hörgdæla og leikstjóri er Gunnar Björn Gunnarsson.

Gauragangur fjallar um ástir og örlög sjálfskipaða snillingsins Orms Óðinssonar, fjölskyldu hans og vina. Skáldsagan sem flestir þekkja kom fyrst út árið 1988. Síðan þá hefur henni verið umbreytt í bæði leiksýningu með söngvum, sem sett hefur verið upp bæði í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu, og bíómynd sem frumsýnd var árið 2010. Ormur er lífskúnstner og skáld sem á ekki alltaf upp á pallborðið hjá foreldrum eða skólayfirvöldum og er saga hans gamansöm þroskasaga með alvarlegum undirtón. Ormur heldur eins og margir á hans aldri að hann sé með allt á hreinu, en þegar líður á verkið kemst hann að því að heimurinn er ekki jafn svarthvítur og hann hélt og manneskjurnar sem honum þykir vænt um ekki heldur. Saga Orms á enn vel við í dag þegar ungt fólk skipar sér í framvarðasveit í aðgerðum við loftslagsvandanum og er skapandi á svo margan hátt. Þó þau gefi kannski ekki lengur út á prenti rit eins og Barngóða Hrægamminn þá lifir sköpun þeirra góðu lífi í netheimum.

Það er alltaf ánægjulegt að sjá samhentan leikhóp segja sögu og það tókst svo sannarlega í þessari sýningu. Leikhópurinn stóð sig mjög vel og var samheldinn og þéttur í samleik sínum. Hnittinn og á köflum bráðfyndin texti Ólafs Hauks skilaði sér vel og var stutt í hláturinn hjá áhorfendum sem virtust skemmta sér konunlega. Þó meira mæddi á sumum leikurum en öðrum þá fórst þeim vel úr hendi að stökkva milli hlutverka án þess að karaktersköpunin yrði flöt eða yfirborðsleg. Gaman hefði þó verið að sjá örlítið stærri leikhóp úr þessu öfluga leikfélagi takast á við þetta stóra verk.

Freysteinn Sverrisson og Særún Elma Jakobsdóttir voru mjög sannfærandi Ormur og Anúr og var vinasamband þeirra eðlilegt í öllu sem þau brölluðu saman. Kolbrún Lilja Guðnadóttir fór á kostum í öllum sínum hlutverkum og söngatriðum, hvort sem það var nærgætin nálgun hennar á hinni einhverfu Ástu, systur Orms, speisaða skólastýran eða Inga, brjálaða mamma Anúrs. Einnig verður að minnast á kraftmikinn leik Silvíu Ránar Sigurðardóttur í hlutverki Gunnfríðar, systur Orms og Þorkells Björns Ingvasonar sem hinn dásamlegi Sveitó og Knútur kærasti Gunnfríðar, en salurinn átti mjög erfitt með sig þegar þau mættu í matarboð heim til Orms.

Gauragangur er leikrit með söngvum og það var stórskemmtilegt að sjá hvernig leikhópurinn og leikstjórinn leystu það verkefni saman. Tónlistin hafði verið tekin upp fyrirfram og var spiluð af bandi en það kom ekki að sök og voru söngatriðin skýr og fallega sungin, þó aðeins hefði mátt gefa meiri kraft í sönginn í sumum atriðunum. Það lífgaði alltaf upp á atriðin þegar fleiri bættust í hópinn og hressilegar sviðshreyfingar og dansar bættust við. Við það urðu þau öruggari og leikgleðin skein í gegn.

Leikverk sem byggð eru á skáldsögum hafa oft og tíðum mörg svið og það þarfnast útsjónarsemi að setja upp svo stóra sýningu á fremur litlu sviðinu á Melum í Hörgárdal. En einföld leikmyndin með upplýstum bakvegg og klappstólum gengur fullkomlega upp. Hinar breytilegu áferðir veggjarins sköpuðu með lýsingunni mismunandi stemningu og þegar texti með staðsetningu og tíma dags bættist við í öðru horninu fór það aldrei á milli mála hvar við vorum í þessum skemmtilega heimi í Reykjavík níunda áratugarins. Ruggukollur, gluggi á réttum stað og nokkrar óvæntar uppákomur settu svo punkinn yfir i-ið. Allar skiptingar milli hinna mörgu sviða voru vel smurðar og trufluðu aldrei flæði sýningarinnar.

Búningar, sem voru í höndum Svanhildar Axelsdóttur og Sigríðar Bernharðsdóttur, voru litríkir og ýttu skemmtilega undir það að við værum komin aftur í tímann með krumpugöllum, leðurjökkum og skólastýru sem greinilega var ennþá föst á áttunda áratugnum.

Þó að verkið sé orðið 30 ára gamalt á það enn erindi við áhorfendur, jafnt unga sem aldna, og stórskemmtileg útfrærsla Leikfélags Hörgdæla á þroskasögu hins óstýriláta Orms Óðinssonar er kvöldstund sem svíkur engan. Líkt og Ormur þarf sífellt að aðlaga sig að nýjum áskorunum lífsins, hefur Leikfélag Hörgdæla aðlagað verkið vel að aðstæðum sínum og öflugum leikhópi með vel heppnaðri útkomu.

 -F. Elli Hafliðason og Jónheiður Ísleifsdóttir

 


Athugasemdir

Nýjast