Störf fyrir hundrað manns í lyfjaþróun á Akureyri

Háskólasvæðið á Akureyri.
Háskólasvæðið á Akureyri.

Rannsóknarstofan Arctic Therapeutic stefnir að því að byggja upp störf fyrir allt að hundrað manns í lyfjaþróun á Akureyri. Prófanir á þremur nýjum lyfjum hefjast á næsta ári. Rúv greinir frá þessu.

Hákon Hákonarson, barnalæknir í Fíladelfíu í Bandaríkjunum, stofnaði rannsóknarstofuna Arctic Therapeutic á Akureyri fyrir þremur árum. Þar eru meðal annars þróuð lyf sem byggjast á rannsóknum hans ytra. „Við erum með fimm lyf í dag sem við stefnum á að þróa og reiknum með að taka þrjú þeirra inn í klíníska þróun á næsta ári og höfuðstöðvar þeirra verða á Akureyri,“ segir Hákon í samtali við Rúv.

Þau lyf eru gegn sjálfsofnæmissjúkdómum, húðsjúkdóum og bólgusjúkdómum í augum. Í dag er fyrirtækið með eina klíníska rannsókn í gangi hér á landi vegna lyfs sem stöðvar framvindu ættgengrar íslenskrar heilablæðingar.

Fyrirtækið hefur aðsetur í Háskólanum á Akureyri. Þar starfa fjórir, og að auki eru þar þrír stúdentar, en mikil uppbygging er í pípunum. Hákon segist treysta á að fá stúdenta á svæðinu til liðs við sig sem geti svo hafið störf hjá fyrirtækinu að námi loknu. Þau séu í fjármögnunarfasa núna sem klárist vonandi á árinu. Það verði því hægt að setja fullan kraft í þetta í byrjun næsta árs sem sé markmiðið. Gangi allt að óskum geti starfsmönnum auðveldlega fjölgað upp í 100 starfsmenn eða meira í náinni framtíð. 

Þá er stefnt að því að setja upp aðstöðu í háskólanum til að geta boðið upp á mótefnamælingur fyrir COVID-19. Hákon segir það geta komið til á næstu vikum, nú sé verið að kanna hvort áhuginn sé fyrir hendi. Þá sé líka hægt að gera greiningarpróf fyrir veirunni verði þörf fyrir því í framtíðinni.


Athugasemdir

Nýjast