Stóraukning í sölu áfengis á Húsavík
Nú standa yfir risaframkvæmdir á húsvískan mælikvarða í sveitarfélaginu Norðurþingi í sambandi við iðnaðaruppbyggingu PCC BakkaSilicon á Bakka. Stórar vinnubúðir hafa þegar risið á Bakkasvæðinu, við Húsavíkurhöfða þar sem LNS Saga vinnur við jarðgangagerð í gegnum höfðann og á Þeistareykjum. Samanlagt skiptir fjöldi starfsfólks hundruðum.
Framkvæmdir af þessari stærðargráðu eru því mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið í sveitarfélaginu og hliðaráhrifa gætir víða.
Til að mynda hefur áfengissala Vínbúðarinnar á Húsavík stóraukist á þessu ári eða um 26% á tímabilinu 1. janúar til 31. maí samanborið við sama tímabil árið 2015.
„Þetta er út af fólkfjölguninni í bænum vegna framkvæmdanna á Bakka og á Þeistareykjum, það hafa bæst hér við fleiri hundruð manns,“ sagði Sigrún Ósk Sigurðardóttir yfirmaður vörusviðs ÁTVR þegar dagskrain.is spurði hvernig skýra mætti þessa söluaukningu, og bætti við: „Auðvitað höfum við skynjað það að það eru fleiri í bænum og við tengjum það alveg iðnaðaruppbyggingunni á Bakka. Það er allavega sameiginlegur skilningur flestra, það er ekki þannig að heimamenn séu allt í einu að versla meira,“ segir hún.
Þau tímamót áttu sér einnig stað í vetur að ákveðið var að hafa opið á laugardögum í allan vetur í fyrsta sinn í 25 ára sögu áfengisverslunarinnar á Húsavík. Ástæðan er þó ekki fólksfjölgun í tengslum við iðnaðaruppbygginguna á Bakka. „Nei, það voru búnar að koma fram óskir um það áður. Þarna ræður mestu að við höfum fengið margar ábendingar og óskir frá fólki í nágrannabyggðum um að hafa opið á laugardögum. Þetta er hugsað sem þjónusta við íbúa svæðisins fyrst og fremst, við erum að taka tillit til þess. Eftir að við breyttum búðinni fannst okkur þetta vera eðlilegt framhald. Það var ekki beint tengt uppbyggingunni á Bakka, sú ákvörðun,“ segir Sigrún Ósk. /epe.