Stóra upplestrarkeppnin fer fram á Akureyri á mánudag

Á morgun, mánudaginn 16. mars, keppa nemendur grunnskólanna á Akureyri til úrslita í upplestri, á lokahátíð upplestrarkeppninnar. Keppnin fer fram í Kvosinnni, Menntaskólanum á Akureyri og stendur frá kl. 17 - 19. Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996 - 1997 með þátttöku 223 barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Sex árum síðar voru börnin 4.579 úr 151 skóla hringinn í kringum landið.  

Keppnin er haldin að frumkvæði áhugafólks um íslenskt mál í samvinnu við skólaskrifstofur, skóla og kennara. Þátttaka í upplestrarkeppninni stendur öllum 7. bekkjum landsins til boða. Verkefnið hefur notið velvilja og stuðnings í ríkum mæli.  Menntamálaráðherra, Lýðveldissjóður og Málræktarsjóður styrktu verkefnið fyrstu árin, bókaútgefendur hafa lagt til bókaverðlaun, bankar og sparisjóðir veitt peningaverðlaun, Mjólkursamsalan, kexgerðir og bakarí hafa lagt til veitingar við lokahátíðir, en blómabúðir blóm.

Frá upphafi hefur verkefnið notið stuðnings menntamálaráðuneytisins, auk þess sem fjölmargir aðrir hafa styrkt verkefnið (í stafrófsröð): Akureyrarbær, Barnavinafélagið Sumargjöf, Byggðastofnun, Flugfélag Íslands, Fræðsluráð Reykjavíkur, Edda, Garðabær, Kennaraháskólinn, Kópavogsbær, Lýðveldissjóður, Málræktarsjóður, Mjólkursamsalan,  Mosfellsbær, Reykjanesbær, Seðlabankinn, Seltjarnarnesbær, Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar og Sparisjóðirnir. Nánari upplýsingar má finna á http://www.ismennt.is/vefir/upplestur/

Nýjast