„Stór og fallegur fiskur um alla á“

Sumarið er hafið í Laxá í Aðaldal, en það var heimafólk frá Laxamýri sem reið á vaðið og hóf veiðar fyrstu vaktina í Bjargstreng neðan Æðafossa klukkan sjö á mánudagsmorgun.
Litlum fimm mínútum síðar hafði Jón Helgi Björnsson fengið væna hrygnu á flugu sína, Laxá bláa. Jón Helgi sagði þetta hafa verið hörku fisk sem lét hafa talsvert fyrir sér. Hrygnan náðist loks á land eftir einhvern eltingaleik og mældist 87 cm löng og 15 pund.
„Sumarið leggst mjög vel í mig, það er óvenju mikið af fiski í ánni svona snemma og þetta er stór og fallegur fiskur,“ sagðir Jón Helgi í stuttu spjalli við Skarp. „Það sem kannski var öðruvísi núna á fyrsta degi veiðinnar en oft áður er að það var lax um alla á. Ég held að menn hafi verið varir við lax hreinlega á öllu stöðum,“ sagði hann. –epe.
-Skarpur, 23. júní.