Stór hópur bænda ræður illa við greiðslubyrði erlendra lána

Bændur hafa ekki farið varhluta af afleiðingum bankakreppunnar fremur en annað atvinnulíf.  Gríðarleg veiking íslensku krónunnar hefur hækkað greiðslubyrði af erlendum lánum á undanförnum mánuðum. Fjölmargir bændur skuldbreyttu lánum sínum í myntlán og mikið af framkvæmdum undanfarinna ára var fjármagnað með slíkum lánum.   

Nú er svo komið að stór hópur ræður illa við greiðsubyrði þeirra. Búnaðarsamband Eyjafjarðar og Bændasamtök Íslands hafa bent á að brýnt sé að lenda ekki í vanskilum en semja við bankastofnanir áður en til þeirra kemur.  Þeim bændum sem stefna í vanskil er bent á að hafa samband við ráðunauta Búgarðs eða sinn viðskiptabanka og leita úrræða á borð við lánalengingu, afborganafrest eða frystingu lána. Sigurgeir Hreinsson bóndi á Hríshóli og formaður Búnaðarsamband Eyjafjarðar segir að fjöldi bænda hafi leitað sér ráðgjafar hjá Búgarði að undanförnu. 

"Það er mikil ásókn í þessa þjónustu og mun meira að gera en verið hefur á þessum vettvangi," segir hann.  Bankar bjóði einnig upp á aðstoð við gerð rekstraráætlana og þangað þurfi þeir bændur að leita sem þurfa að endurfjármagna bú sín. Stjórn Búnaðarsambands kom saman á dögunum og fór yfir stöðu mála og hvernig bregðast þurfi við ástandinu.  Ljóst er að sögn Sigurgeirs að erfiðir tímar séu framundan og þó að mjólk hækki eitthvað í verði til bænda nú, "er það bara helmingurinn af því sem bændur hefðu þurft að fá," segir hann. 

Sigurgeir segir að fjölmargir bændur séu afar illa settir í kjölfar efnahagskreppunnar og eigi það einkum við um kúabændur, þá sem á undanförnum árum hafi af mikilli bjartsýni endurnýjað eða byggt ný fjós, tækjakost og fest kaup á kvóta.  "Það er margir mjög illa staddir, en þó ástandið sé djöfullegt í augnablikinu þó vonum við auðvitað að birti um síðir og ástandið verði ekki svona til lengri tíma litið," segir Sigurgeir.  Í þeim þrengingum sem nú standa yfir bendir Sigurgeir þó á einn jákvæðan punkt, sem sé þann að fólkið í landinu sé nú meira meðvitað um mikilvægi innlendrar framleiðslu matvæla. "Við áfall sem þetta opnast augu manna fyrir því að nauðsynlegt er að framleiða mat á Íslandi," segir  Sigurgeir.

Nýjast