„Stór dagur fyrir Nökkva"

Nýtt og glæsilegt aðstöðuhús hefur verið afhent Siglingaklúbbnum Nökkva og er framkvæmdum þar með að mestu lokið og húsið tilbúið til notkunar, þótt einhver smávægilegur frágangur sé eftir. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Framkvæmdir hafa gengið mjög vel og samkvæmt áætlun, en umsamin verklok voru 15. júlí.

„Hugsað stórt og vandað til verks“

Sigurgeir Svavarsson verktaki sem annaðist framkvæmdina afhenti Tryggva Jóhanni Heimissyni, formanni Nökkva, lyklana að húsinu á föstudag.

Í tilkynningu á vef félagsins segir að þetta sé „stór dagur fyrir Nökkva enda búið að bíða lengi eftir góðri aðstöðu fyrir siglinga-, kajak-, og róðrafólk og annað sjósportáhugafólk. Stjórn Nökkva vill þakka verktökum, hönnuðum, starfsfólki Akureyrarbæjar og bæjarfulltrúum sem hafa gert þetta að veruleika. Hér er hugsað stórt og vandað til verks og óhætt að segja að allir sem að þessu koma geti verið stoltir af framkvæmdinni.“

Ítarlega umfjöllun má finna í Vikublaðinu sem kemur út á fimmtudag. 


Nýjast