Stofna rafíþróttadeild á Húsavík

Mynd/UMFÍ.
Mynd/UMFÍ.

Tölvuleikir hafa þróast mikið á undanförnum árum og fengið aukið vægi sem frásagnarform. Þá eru tölvuleikir stundaðir af öllum aldurshópum sem íþróttagrein og rafíþróttadeildir hafa sprottið upp út um allt land.

Í vikunni var haldinn rafrænn kynningarfundur á Húsavík um rafíþróttir en til stendur að stofna rafíþróttadeild á Húsavík innan skamms. Það eru þau Sigríður Hauksdóttir, Eysteinn Kristjánsson, Halldór Jón Gíslason og Hjálmar Bogi Hafliðason sem leiða vinnuna á bak við þessar hugmyndir.

Hjálmar sagði í samtali við Vikublaðið að búið væri að kanna grundvöll fyrir stofnun félagsins og ljóst að áhugi væri mikill. „Eftirspurnin fyrir rafíþróttafélagi er svo sannarlega til staðar hjá unga fólkinu og það er okkar fullorðna fólksins að sjá til þess að koma því á laggirnar.“ Hann segir að jafnframt að þegar hafi fengist talsverðir styrkir og nú tæki við vinna við að finna húsakost og tækjabúnað og það fjármagn sem til þarf.

Stofnfundur félagsins verður auglýstur síðar. Kynningarfundurinn í vikunni var vel sóttur og má geta þess að yngsti þátttakandinn var 9 ára og sá elsti á áttræðis aldri. Halldór Jón Gíslason, aðstoðarskólameistari Framhaldsskólans á Húsavík kemur að verkefninu og hann sagði í samtali við Vikublaðið að mikill áhugi væri innan skólans fyrir því að auka vægi rafíþrótta og forritunar í kennslu. Enn ætti þó eftir að koma í ljós að með hvaða hætti skólinn kæmi að rafíþróttafélaginu.

/epe

 


Athugasemdir

Nýjast