Stjórnvöld og útvegsmenn skoði í sameiningu áhrif frumvarpsins

 Á fundi stjórnar Landssambands íslenskra útvegsmanna sem haldinn var í gær var fjallað um frumvörp til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Landssamband íslenskra útvegsmanna átelur harðlega vinnubrögð við gerð frumvarpanna þar sem ekkert samráð var haft við atvinnugreinina. Verði þau að lögum munu þau hafa grafalvarleg áhrif á íslenskan sjávarútveg og íslenskt samfélag. Áform um að skerða aflaheimildir og gera stærstan hluta afkomu fyrirtækjanna upptækan kollvarpa rekstri þeirra og fjölmörg þeirra verða gjaldþrota. Áhrif á tengdar greinar og þau byggðarlög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi verða einnig alvarleg. Með því að draga máttinn úr íslenskum sjávarútvegi er vegið að lífskjörum sjómanna, fiskverkafólks og landsmanna allra. Útvegsmenn hafa óskað eftir aðkomu að endurskoðun laga um stjórn fiskveiða allt frá því að ríkisstjórnin komst til valda. Endurtekin frumvörp ríkisstjórnarinnar sem samin hafa verið án aðkomu greinarinnar hafa öll verið ónothæf. Nú er mál að linni. Stjórn Landsambands íslenskra útvegsmanna skorar á ríkisstjórnina að draga frumvörpin til baka og vinna þau faglega með þátttöku atvinnugreinarinnar. Útvegsmenn óska eftir að skipaður verði starfshópur sérfræðinga með fulltrúum stjórnvalda og útgerðarmanna til að meta þjóðhagslegáhrif frumvarpanna, áhrif þeirra á atvinnugreinina, starfsfólk og sveitarfélögin.

Nýjast