"Það er hrópað á fleiri störf en sama tíma eru stjórnvöld hreinlega að þvælast fyrir. Menn verða stundum að slá af prinsippmálum, ekki síst við aðstæður sem þessar. Það virðist einhver ákvörðunarfælni vera í gangi hjá þessari ríkisstjórn." Björn segir að hægt væri að ráðast í gerð í Vaðlaheiðarganga, þar hafi verið búið að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu. "Hvað er að frétta af þeirri framkvæmd, hefur samgönguráðherra og þingmaður kjördæmisins verið að drepa það mál niður. Mér finnst menn vera að gera meiri skemmdarverk en að vinna að uppbyggingu."
Björn segir að vandi heimilanna sé líka mikill en að stjórnvöld séu einnig algjörlega ráðalaus gagnvart honum. "Ég skil ekki hvernig menn gátu tekið 14 vikur í að tala um eitt mál á Alþingi, án þess að nokkur önnur mál kæmust að. Vissulega er þetta Icesave-mál stórt en það voru ekki allir þingmennirnir að fjalla um það og það hefði verið hægt að gera ýmislegt annað á meðan."
Í dag eru rúmlega 1000 manns á atvinnleysisskrá á Norðurlandi eystra, tæplega 500 karlar og rúmlega 500 konur. Björn segir frekar erfitt að meta stöðuna á vinnumarkaðnum en að það séu bæði jákvæð og neikvæð teikn á lofti. Hann segir það jákvætt fyrir byggingaiðnaðinn að SS Byggir ætli að ráðast í byggingu fjölbýlishúss við Undirhlíð, auk þess sem ýmis verkefni tengd byggingaiðnaðinum séu í pípunum. Hins vegar sé mikil óvissa á öðrum sviðum en hann er þó ekki eins svartsýnn gagnvart haustinu og fyrir mánuði.