Stjórnlagaþingið er það jákvæðasta sem hefur komið út úr kreppunni, sögulegur viðburður sem gerir okkur kleift að gera mikilvægar umbætur á samfélaginu. Því miður hefur það ekki fengið jafn mikla og jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum og það á skilið og fyrir vikið virðast sumir ekki alveg með á nótunum. Hvað er stjórnlagaþing? Hversu oft fer það fram? Hvernig á ég að kynna mér alla þessa frambjóðendur? Hvernig er kosið? Hver er munurinn á stjórnlagaþinginu og þjóðfundinum? Þetta eru algengar spurningar sem fjölmiðlar eru ekki nógu duglegir við að svara.
Hlutverk stjórnlagaþings er að endurskoða stjórnarskrá Íslands og gera drög að breytingum á henni. Þetta hefur aldrei verið gert áður á þennan hátt. Stjórnarskráin okkar sem tók gildi þegar við fengum sjálfstæði frá Danmörku árið 1944 og er að miklu leyti byggð á þeirri dönsku, hefur aldrei verið endurskoðuð í heild sinni áður. Stjórnlagaþingið gæti leitt til þess að ný stjórnarskrá taki gildi, að því gefnu að hún verði samþykkt á Alþingi. Gjaldgengir frambjóðendur til stjórnlagaþings voru allir þeir Íslendingar sem ekki eru ráðherrar, Alþingismenn eða forseti Íslands. Þegar framboðsfresturinn rann út 18. október kom í ljós að 523 einstaklingar eru tilbúnir til að leggja fram krafta sína á stjórnlagaþingi, sem að mínu mati endurspeglar mikinn áhuga í samfélaginu. Því ber að fagna þótt flókið gæti reynst að kynna sér alla þessa frambjóðendur.
Hægt er að renna yfir lista og stefnumál og skoða þá frambjóðendur sem vekja athygli nánar á vefsíðunum kosning.is og svipan.is. Auk þess verður kynningarbæklingur borinn út á öll heimili. Kosið verður til stjórnlagaþings 27. nóvember, kosið verður um einstaklinga en ekki flokka. Kosning fer fram á hinum hefðbundnu kjörstöðum, en gæti tekið aðeins lengri tíma en vanalega þar sem kjósendur þurfa að skrifa númer frambjóðenda á kjörseðlana í forgangsröð, þ.e. númer þess aðila fer efst á blað sem kjósandi vill helst að fari inn á þing. Númer frambjóðenda fylgja kynningunum á netinu og í bæklingnum. Á kosning.is og í bæklingnum er prufukjörseðill, sem hægt er að setja númerin inn á og hafa með sér í kjörklefann til að færa yfir á hinn eiginlega kjörseðil. Hægt er að kjósa 1-25 frambjóðendur.
Stjórnlagaþing kemur saman í febrúar og stendur í tvo til fjóra mánuði. Þar verða ákveðin atriði stjórnarskrárinnar til umfjöllunar, s.s. stjórnkerfi landsins og forsetaembættið. Lista umræðuefna má finna á vefsíðunni stjornlagathing.is ásamt öðrum upplýsingum um stjórnlagaþingið. Önnur atriði má taka upp ef meiri hluti þingmanna kýs að gera það. Til greina verða tekin þau atriði sem þátttakendur þjóðfundarins kom sér saman um 6. nóvember, sjá thjodfundur2010.is. Þar komu saman hátt í 1.000 einstaklingar sem fengu boð á fundinn samkvæmt slembiúrtaki og má líta á þá sem þverskurð þjóðarinnar.
Almennt séð tel ég að fólk hafi áhuga á stjórnlagaþingingu og breytingum á stjórnarskránni, en sumir vilja ekki ræða það á þeim forsendum að þeir séu „ópólitískir". Sú afsökun á ekki við, að mínu mati. Stjórnlagaþingið er kannski pólitískt, en á það ekki við um öll atriði sem varða samfélagið og þar með okkur öll? Það er a.m.k. ekki flokkspólitískt eins og Alþingi. Mér finnst það skylda okkar allra að hafa skoðun á þeirri umgjörð samfélagsins sem stjórnarskráin er. Gerum okkar besta til að kynna okkur stjórnlagaþing og frambjóðendur, ræðum stjórnarskrána við vini og ættingja, útskýrum fyrirkomulag kosninga fyrir þeim sem finnst það illskiljanlegt og hvetjum alla til að kjósa 27. nóvember. Nú er komið svar við kröfu almennings um breytingar. Stjórnarskráin varðar okkur öll.
Höfundur er frambjóðandi til stjórnlagaþings nr. 3854.