Stjórn Vaðlaheiðarganga tekur áhættu og lánar fyrir flutningum á efni í flughlaðið

Séð yfir Akureyrarflugvöll og framkvæmdirnar við flughlað. Mynd/Ingimar Eydal
Séð yfir Akureyrarflugvöll og framkvæmdirnar við flughlað. Mynd/Ingimar Eydal

Vinna hefur hafist á ný við við nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli. Mikið efni hefur þegar verið flutt af framkvæmdasvæðinu við Vaðlaheiðargöng og verður því haldið áfram á næstu dögum. Nú þegar er búið að grafa um 75% af lengd ganganna og búist er við að slegið verði í gegn um áramót. Þetta kemur fram í hugleiðingum Njáls Trausta Friðbertssonar bæjarfulltrúa á Akureyri á Facebooksíðu hans.

„Þannig að ef það á að takast að klára nýtt flugvallarhlað úr efni sem kemur úr göngunum þá þarf nánast allt efnið sem eftir er að falla til að nýtast í nýtt flugvallarhlað,“ segir í hugleiðingunni.

Flughlaðið á Akureyrarflugvelli hefur verið mikið í umræðunni undanfarið þar sem ekki er gert ráð fyrir fjármögnun þess í samgönguáætlun en það hefur verið harðlega gagnrýnt. Fjármögnun verkefnisins er því ekki komin á hreint ennþá. Stjórn Vaðlaheiðarganga virðist því vera að taka ákveðna áhættu með því að lána fyrir flutningum á efni í flughlaðið úr gangagerðinni án nokkurrar vissu um það hvort félagið fái greitt til baka,- veltir Njáll fyrir sér.

„Það er flestum ljóst að ríkið sparar háar upphæðir með að klára verkefnið með ódýru efni úr gangnaframkvæmdunum í Vaðlaheiði. Á mun hagstæðari verðum heldur en bjóðast almennt í dag á Akureyrarsvæðinu,“ segir í jafnframt í hugleiðingunni, en hana má lesa í heild sinni hér að neðan. /epe.

 

"Í gær hófst á ný vinna við nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli. Í vetur voru um 50.000 m3 fluttir í flughlaðið af framkvæmdasvæðinu við Vaðlaheiðagöngin. Núna á næstu dögum og vikum verða 20.000m3 fluttir í viðbót. Þá verður efnismagnið komið í 70.000m3 þá vantar enn um 100.000m3 af efni til að klára þennan þátt verkefnisins. 
Í dag er búið að sprengja (grafa) um 75% af lengd ganganna. Þannig að léttur hugarreikningur segir okkur að 125.000m3 af efni eru eftir að koma út úr göngunum. Reiknað er með að það verði slegið í gegn í kringum áramót. 
Þannig að ef það á að takast klára nýtt flugvallarhlað úr efni sem kemur úr göngunum þá þarf nánast allt efnið sem eftir er að falla til að nýtast í nýtt flugvallarhlað. 
Það hefur í sjálfu sér engin breyting á orðið á fjármögnun flughlaðsins og ekki er gert ráð fyrir framkvæmdinni í samgönguáætlun sem væntanlega verður samþykkt í ágúst/sept. Stjórn Vaðlaheiðarganga er því að taka áhættu með þessu þar sem hún er að taka á sig fjárhagslega skuldbindingar með að lána fyrir flutningnum á efninu upp á von og óvon að fá greitt til baka.
Það er flestum ljóst að ríkið sparar háar upphæðir með að klára verkefnið með ódýru efni úr gangnaframkvæmdunum í Vaðlaheiði. Á mun hagstæðari verðum heldur en bjóðast almennt í dag á Akureyrarsvæðinu.
Svona skil ég stöðu málsins í dag, gott fólk".

Nýjast