Stjórn fiskveiða

Björn Valur Gíslason skrifar

Starfshópur um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða skilað í haustbyrjun niðurstöðum sínum og tillögum til úrbóta á þeim vattvangi eins og hópnum var falið að gera. Þar segir m.a. um megin niðurstöðu hópsins:
„Meirihluti starfshópsins telur rétt að gerðir verði samningar um nýtingu aflaheimilda og þannig gengið formlega frá því að auðlindinni sé ráðstafað af ríkinu gegn gjaldi og að eignarréttur ríkisins sé skýr. Samningarnir skulu m.a. fela í sér ákvæði um réttindi og skyldur samningsaðila, kröfur til þeirra sem fá slíka samninga, tímalengd og framlengingu samninga, gjaldtöku, aðilaskipti, ráðstöfun, aflahlutdeilda sem ekki eru nýttar, meðferð sjávarafla o.fl.."
Hér er skýrt talað og skilaboðin til ráðherra fara ekki á milli mála. Það er rétt að minna á að með meirihluta starfshópsins er átt við alla aðila hópsins, utan fulltrúa hreyfingarinnar og Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda. Að öðru leiti var algjör samhljómur hjá þessum fjölmenna hópi sem vann að gerð tillagna til úrbóta á lögum um stjórn fiskveiða. Í þeim hópi voru fulltrúar beggja stjórnarflokka auk annarra stjórnmálaflokka á Alþingi, fulltrúar allra stéttarfélaga sjómanna, útgerða, fiskverkenda og annarra sem málið varðar með beinum hætti.

Sérálit stjórnarmeirihlutans

Í lokaskýrslu starfshópsins eru allmörg sérálit einstakra aðila hópsins þar sem áréttuð eru einstök atriði varðandi þær tillögur sem lagðar eru fram. Fulltrúar stjórnarflokkanna fjölluðu í sínu áliti um þær tvær leiðir sem helstar hafa verið í umræðunni, þ.e. sk. tilboðsleið (fyrningarleið) og hinsvegar samningaleiðina sem meirihluti starfshópsins leggur til að verði farin. Í bókun fulltrúa stjórnarmeirihlutans segir m.a. um samningaleiðina: Önnur leið að sama marki, sk. samningaleið, var einnig mikið rædd og felst í að innkalla aflaheimildir og úthluta þeim aftur með leigu- eða afnotasamningum. Ákveðnum hluta aflaheimilda yrði ráðstafað með slíkum samningum til núverandi handhafa aflamarks til ákveðins tíma. Jafnframt verði sérstakur „pottur" fyrir ýmsar ívilnanir og bætur, sem og tengingu aflaheimilda við ákveðnar byggðir eða svæði, strandveiðar og fleira þess háttar. Við teljum þess virði að fara þessa leið ef hún má verða til frekari sáttar meðal þjóðarinnar og hagsmunaaðila um fiskveiðistjórnunarkerfið."

Álit annarra

Aðrir aðilar starfshópsins voru sömu skoðunar eins og lesa má úr eftirfarandi bókunum þeirra: Samtök fiskvinnslustöðva: Samtök fiskvinnslustöðva leggja til í framhaldi af þessari skýrslu að farið verði í þá vinnu að útfæra nánar Samningaleiðina og að verkið verði unnið í sátt við hagsmunaðila í sjávarútvegi."

Stéttarfélög sjómanna: „Undirritaðir að undanskildum fulltrúa Samtaka fiskframleiðanda og útflytjenda (SFÚ), fallast á að í grunninn verði svokölluð samningaleið farin, þar sem samið verði við útgerðir til um það bil 15 ára um nýtingarétt á auðlindinni."
Fulltrúi starfsgreinasambands Íslands: „Undirritaður er jafnframt þeirrar skoðunar að farsælast sé fyrir íslenskan sjávarútveg að fara svokallaða samningaleið þar sem aflaheimildum verði skipt upp í potta með ákveðnum hætti sem föstu hlutfalli af útgefnum veiðiheimildum."

Fulltrúi LS: „Í skýrslu sáttanefndar er gert ráð fyrir að gerður verði samningur við handhafa veiðiréttar til langs tíma um nýtingu- /afnotarétt sjávarauðlindarinnar sem byggður verði á veiðirétti hvers og eins. Landssamband smábátaeigenda getur fyrir sitt leiti samþykkt að mæla með því við félagsmenn sína að undirrita slíka samninga ..."

Markmið og tilgangur

Starfshópnum var ætlað að greina álitaefni í lögum um stjórn fiskveiða og gera tillögur að framtíðarskipan nýrra laga um stjórn fiskveiða. Það tókst betur en flestir ætluðu í upphafi og hópurinn lagði til nánast einum rómi hugmynd að tiltekinni leið til að ná þeim markmiðum sem honum var ætlað að ná. Það eru því vandfundin þau rök sem hníga gegn því að fara þá leið til sátta sem opnað hefur verið á með tillögum starfshópsins. Til hvers var þá af stað farið í sáttarleit ef sáttinni sjálfri verður hafnað þegar henni hefur verið náð?

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna í NA-kjördæmi og fyrrverandi varaformaður starfshóps um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

Nýjast