Steypireyðarsýning formlega opnuð
Á alþjóðlega safnfdeginum 18. maí, var steypireyðarsýning Hvalasafnsins á Húsavík formlega opnuð, þó hún hafi raunar verið opin að undanförnu, en upphafleg vígsla fór út um þúfur vegna veðurteppu helstu gesta á sínum tíma. En nú var Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra mættur og opnaði sýninguna með því að klippa á fagurrrauðan borða með beinagrind af stærstu skepnu jarðarinnar sér að baki.
Huld Hafliðadóttir, verkefnastjóri Hvalasafnsins, ávarpaði gesti og sagði að þetta væru tímamót, sýningin væri stærsta verkefni sem safnið hefði ráðist í. Hún sagði að þessi sýning væri og yrði í stöðugri þróun og hér væri ekki aðeins verið að sýna þessa gríðargrind, einnig yrði fjallað um hvalreka að fornu og nýju og þýðingu þeirra fyrir þjóðina.
Hún lauk lofsorði á alla sem að verkefninu hefðu komið, en tiltók sérstaklega Þorvald hamskera Björnsson, “hann Dodda okkar” og Þórarinn Blöndal, sem sáu um hönnun og uppsetningu. “Þetta er stórkostleg sýning og á heimsmælikvarða - að okkar mati.” Sagði Huld.
Menntamálaráðherra óskaði starfsfólki og heimamönnum öllum til hamingju með þennan áfanga. Málið hefði átt sér langan aðdraganda frá því hvalinn rak á land 2010 og m.a. orðið deilur um staðarval. Þetta hefði eitt af fyrstu málum sem komu inn á hans borð sem menntamálaráðherra. Og það hefði ekki verið erfið ákvörðun að velja grindinni stað á Húsavík, til þess hefðu flest rök hnigið, þetta glæsilega safn til staðar, landsbyggðarrök og einnig hefðu sjónarmið ferðaþjónustu hér ráðið ýmsu. Þá hefði það ekki spillt fyrir að njóta stuðnings fyrrverandi forsætisráðherra í málinu. /JS
- Skarpur, 19. maí