Sterkar vísbendingar um að rafmengun valdi fósturdauða í sauðfé

Sterkar vísbendingar hafa komið fram um áhrif rafmengunar á fósturdauða í sauðfé og telja bændur í Eyjafirði sem funduðu um málið það vera sérstakt rannsóknarefni.  Fram kemur í ályktun fundarins að ýmsar fleiri vísbendingar séu um neikvæð áhrif rafmengunar á aðrar búfjártegundir og telja bændur brýnt að stjórn Bændasamtaka Íslands beiti sér fyrir úttekt á frágangi rafmagnslagna í útihúsum og þá sérstaklega frágangi jarðskauta. Þá er því beint til BÍ að rannsóknir verði gerðar á áhrifum rafmengunar á sjúkdóma í búfé.

Ólafur G. Vagnsson ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar segir að mikið sé rætt um fósturlát kinda enda hafi þónokkuð borið á því í héraðinu að ær láti lömbum.  Nýlega segir hann að sjónum manna hafi verið beint að hugsanlegri rafmengun sem ástæður hins mikla fósturdauða og hafi sérfræðingar farið á nokkra bæi þar sem fósturdauði hefur verið áberandi.  Þar hafi menn merkt greinilega rafmengun.  Hann segir að nú skorti fjármagn til að rannsaka þennan hugsanlega orsakavald betur, gera meiri og nákvæmari mælingar og eins að huga að úrbótum þar sem það á við. Nefnir Ólafur að víða sé frágangi á raflögnum ábótavant og það geti valdið óæskilegri spennu í andrúmslofti sem aftur veldur fósturdauðanum.

Þórarinn Ingi Pétursson í Laufási stækkaði fjárhús sín árið 2005, fyrstu tvö árin voru 30 gemlingar geldir, nú í vor 54.  Í ljós hefur komið að í húsunum þar sem þeir voru er hátt THD-gildi (harmonisk mengun) og telur Þórainn Ingi nauðsynlegt að hefja rannsókn á þessu hið fyrsta. Fram kom að vegna vantrúar og andstöðu við rannsóknar á fyrirbærum af þessu tagi hafi illa gengið að fá fé til rannsókna á áhrifum rafmengunar. 

Nýjast