"Stemmningin aldrei verið betri"
Það ríkir mikil eftirvænting og spenna hjá Mjölnismönnum, stuðningsmannaliði Þórs, fyrir bikarúrslitaleikinn gegn KR á
Laugardalsvelli í dag. Mjölnismenn munu að sjálfsögðu fylgja sínum mönnum á stórleikinn en þeir hafa stutt vel við
bakið á Þór undanfarin ár og leikmenn liðsins sjálfir talað um þeir séu eins og tólfti maðurinn á vellinum.
Óðinn Svan Óðinsson er formaður félagsins og segir hann stemmninguna gríðarlega í hópnum.
"Hún hefur bara aldrei verið betri. Það er mikill spenningur í mönnum. Við erum búnir að vera að skipuleggja rútuferðir og upphitun. Við erum búnir að taka á leigu tvær rútur og þurfum kannski að bæta þeirri þriðju við því það er allt að fyllast. Það fara hátt í 100 manns með okkur,“ segir Óðinn, en sjálfir eru Mjölnismenn á milli 50-60 manns
Stuðningsmenn Þórs ætla að hittast á Ölver fyrir leikinn kl. 13:30 og munu svo marsera saman á völlinn en leikurinn hefst kl. 16:00. Sjálfur er Óðinn bjartsýnn á góð úrslit í dag.
„Ég held að KR eigi eftir að vanmeta okkur Þórsara svolítið og við höfum engu að tapa,“ segir hann og bætir við að Mjölnismenn bíði spenntir eftir að mæta stuðningsmannaliði KR, Miðjunni, í stúkunni. „Loksins mætum við alvöru stuðningsmannaliði og vonandi tökum við þetta bara,“ segir Óðinn Svan Óðinsson.