Stelpur rokka á Norðurlandi
Ný sjálfboðaliðasamtök á Akureyri, Stelpur rokka á Norðurlandi, voru stofnuð á dögunum. Samtökin eru dóttursamtök Stelpur rokka! á Íslandi en munu þjóna Norðurlandi með utanumhald á því svæði með það að markmiði að efla stúlkur, konur, transmenn og kynsegin einstaklinga í gegnum tónlist.
Starfið verður mótað að fyrirmynd Stelpur rokka! sem fagna 5 ára afmæli á þessu ári en nú hafa yfir 275 þátttakendur tekið þátt í starfi Stelpur rokka! Á Íslandi.
Starfið í ár verður í samstarfi við Listasumar á Akureyri og Ungmennahúsið Rósenborg en það er stutt af Akureyrarstofu og Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og vestra.
Samtökin starfa ekki í hagnaðarskyni og er leitast við að fara ódýrar leiðir í kynningu og starfsemi þar sem eitt af markmiðum starfsins er einnig að geta boðið upp á valfrjáls þátttökugjöld svo efnaminni einstaklingar fái tækifæri til að taka þátt í því.
Í sumar verður tvenns konar starfsemi í boði, helgina 3.-5. júní verður svokallað Kvennarokk fyrir konur, transmenn og kynsegin einstaklinga þar sem þeim gefst tækifæri að læra á hljóðfæri, spila í hljómsveit og koma fram á tónleikum á sunnudagseftirmiðdeginum, auk fleiri vinnusmiðja. Þessi smiðja er fyrir einstaklinga á öllu landinu þar sem aðeins verður boðið upp á eina slíka í ár á landinu.
Vikuna 18.-22. júlí verða svo rokksumarbúðir fyrir 12-16 ára stúlkur og transkrakka sem byggir á sama kerfi og kvennarokkið en vinnan dreifist þá á heila vinnuviku með tónleikum í lok vikunnar, á föstudagseftirmiðdeginum.
Einstaklingar á öllu Norðurlandi eru hvattir til að taka þátt en starfið í ár mun fara fram á Akureyri.
Skráning er hafin á www. stelpurrokka.org þar sem einnig er hægt að lesa nánar um starfið, en hægt að leita nánari upplýsinga á stelpurrokkanordurland@gmail.com.