Steingrímur J. Sigfússon, oddviti Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, var langoftast strikaður út í þingkosningunum á laugardaginn var, eða færður neðar á framboðslista, samtals 258 sinnum samkvæmt upplýsingum frá yfirkjörstjórn kjördæmisins.
Þar á eftir kemur Kristján Þór Júlíusson oddviti Sjálfstæðisflokksins með 57 útstrikanir, 31 strikaði yfir nafn Valgerðar Gunnarsdóttur hjá Sjálfstæðisflokknum og 27 strikuðu yfir nafn Njáls Trausta Friðbertssonar Sjálfstæðisflokki.
Þórunn Egilsdóttir oddviti Framsóknarflokksins var strikuð út 23 sinnum og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson oddviti Miðflokksins 20 sinnum. Líneik Anna Sævarsdóttir, önnur á lista Framsóknarflokksins, var strikuð út 19 sinnum líkt og Arnbjörg Sveinsdóttir í fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.
Ingibjörg Þórðardóttir, sem skipaði þriðja sæti á lista Vg, var strikuð 16 sinnum út og þeir Hjálmar Bogi Hafliðason, fjórði maður á lista Framsóknarflokksins, og Þorgrímur Sigmundsson, þriðji á lista Miðflokksins, voru hvor um sig strikaðir tólf sinnum út.
Logi Már Einarsson, oddviti Samfylkingarinnar, var strikaður tíu sinnum út.