Stefnt er að því að bjóða út framkvæmdir við lagningu Dalsbrautar, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut, öðru hvoru megin við næstu mánaðamót, að sögn Odds Helga Halldórssonar formanns framkvæmdaráðs Akureyrar. Oddur segir að framkvæmdin sé í hefðbundnu umsagnarferli hjá skipulagsstofnun og allt taki þetta tíma. Við leggjum hins vegar mikla áherslu á að koma verkinu í gang sem allra fyrst.
Að mati umhverfisstofnunar mun gerð Dalsbrautar ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Framkvæmdin muni hins vegar verða til þess að akstur um tiltekið íbúðahverfi muni aukast og að umferðaröryggi við Lundarskóla verði ekki eins gott og áður. Þá telur Fornleifavernd ríkisins að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Heildarkostnaður við lagningu Dalsbrautar er áætlaður um 200 milljónir króna. Þar er um að ræða götuna sjálfa, stígagerð, lagfæringar á gatnamótum og umferðarljós, auk annars kostnaðar.