Stefnt að framkvæmdum við nýjan hjóla-og göngustíg árið 2022

Horft út Eyjafjörð. Áfangastaðir verða við nýja hjóla- og göngustíginn þar sem
útivistarfólk getur …
Horft út Eyjafjörð. Áfangastaðir verða við nýja hjóla- og göngustíginn þar sem útivistarfólk getur notið útsýnis.

Nýr hjólreiða- og göngustígur er á teikniborðinu hjá Svalbarðsstrandarhreppi. Gert er ráð fyrir að stígnum verði skipt upp í þrjá þætti; Akureyri-Vaðlaheiðargöng, Vaðlaheiðargöng- Svalbarðseyri og loks Svalbarðseyri-Garðsvík. Mun stígurinn tengjast stígakerfum Akureyrar og Eyjafjarðarsveitar í framtíðinni.

Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Svalbarðsstrandahreppir, segir við fyrirspurn blaðsins að á næsta ári muni sveitarstjórn ákveða legu stígsins og gengið verði frá samningum við landeigendur og Norðurorku sem ætlar að flytja vatn frá Vaðlaheiðargöngum til Akureyrar.

„Ef allt gengur upp ætti fyrsti hluti að komast í framkvæmd árið 2022 en sá partur er einna snúnastur, miklar klappir og landhalli. Þjóðvegurinn liggur þannig að lítið rými er fyrir göngu- og hjólreiðastíg,“ segir Björg. „Næsti áfangi verður þá að Svalbarðseyri og sá partur verður vonandi framkvæmdur árið eftir.“

Björg segir ljóst að þörfin fyrir göngu-og hjólastígnum sé mikil. „Ég held að við gætum átt von á nýrri tegund ferðamanna þegar net göngu- og hjólastíga þéttist bæði hér, í Eyjafjarðarsveit og á Akureyri.“


Athugasemdir

Nýjast