Stefnt að fjölbreyttri dagskrá á 150 ára afmælisári Akureyrarkaupstaðar
Akureyrarkaupastaður verður 150 ára á næsta ári og undanfarna mánuði hefur starfað sérstök afmælisnefnd við undirbúning. Formaður hennar er Tryggvi Gunnarsson bæjarfulltrúi L-listans en með honum í nefndinni eru þær Helena Þ. Karlsdóttir lögmaður og Úlfhildur Rögnvaldsdóttir formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni.
Nefndin mun starfa til loka afmælisársins, en í erindisbréfi sem bæjarráð staðfesti segir: "Það er vilji bæjarráðs að sem flestir komi að hátíðarhöldum og verkefnum í tilefni afmælisársins og að stofnanir og félög sem njóta styrkja frá Akureyrarbæ noti hluta af þeim til viðburða í tengslum við afmælisárið. Bæjarráð beinir því jafnframt til deilda og stofnana bæjarins og allra sem málið varðar að reikna með afmælisárinu í skipulagningu verkefna ársins 2012."
Tryggvi formaður segir að undirbúningur sé í fullum gangi en að verkefnið sé mjög viðamikið. Við höfum lagt mesta áherslu á það að vekja athygli á afmælisárinu en markmiðið er að vera með fjölbreytta dagskrá í boði allt árið. Þetta er vissulega stór viðburður og við viljum því fá sem allra flesta til þess að taka þátt. Við eigum við að vera stolt af bænum okkar og nýta þessi tímamót til góðra verka.
Afmælisdagur bæjarins er 29. ágúst og segir Tryggvi ráðgert að aðalhátíðarhöldin verði í 10 daga í kringum afmælisdaginn. Minjagripaverkefni er í gangi og þá er í gangi samkeppni um afmælismerki bæjarins, sem nota á yfir allt árið. Auk þess sem vonast er eftir þátttöku félaga og stofnana, segir Tryggvi að horft sé til þess að nýta hverfisnefndirnar, t.d. með hverfishátíðum, enda eigi öll hverfin sína sögu. Í boði sé fjölbreytt afþreying og að þar megi bæta við og þá geti fyrirtæki jafnframt nýtt sér þennan viðburð á ýmsan hátt. Hér eru glæsileg matvælafyrirtæki sem gætu t.d. boðið upp á sérstakar afmælisvörur. Við erum að bjóða heim í heilt ár, Akureyri er í tísku, okkur er að fjölga og við eigum að halda því vel á lofti, segir Tryggvi.
Með afmælisnefndinni starfa þrír embættismenn, þau Hulda Sif Hermannsdóttir á Akureyrarstofu, Pétur Bolli Jóhannesson skipulagsstjóri og Sigríður Stefánsdóttir verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ en hún er jafnframt framkvæmdastjóri afmælisársins.