Stefnt að auknum umsvifum og samkeppni í sorphirðu

Íslenska Gámafélagið, sem er með aðstöðu á Oddeyrartanga, hyggst flytja starfsemi sína þaðan um mitt komandi sumar.  Þá hefur félagið einnig í hyggju að auka umsvif sín á Akureyri á sviði sorphirðu. Tveir starfsmenn vinna nú hjá félaginu í bænum. Jón Þórir Frantzson forstjóri Íslenska Gámafélagsins segir að á svæðinu við Oddeyrartanga sé einungis tekið við endurvinnanlegu sorpi, aðallega pappa af ýmsu tagi, en þangað komi ekki neitt almennt sorp, s.s. frá heimilum eða fyrirtækjum. „Við höfum um skeið leitað að varanlegri bækistöð á Akureyri með það í huga að auka okkar umsvif á þessu sviði,“ segir Jón Þórir. 

Hann segir að félagið hafi fundið nýtt húsnæði og svæði sem henti starfseminni og er um þessar mundir verið að vinna að því í samvinnu við bæjaryfirvöld að afla tilskilinna leyfa fyrir starfseminni á nýjum stað.  Stefnt er að því að sögn Jóns Þórir að flytja starfsemi á nýjan stað 1. júlí nk. „Þegar við höfum flutt okkur um set og hafið starfsemi á öðrum stað munum við hafa tök á að taka við almennu sorpi, þar á meðal heimilissorpi,“ segir Jón Þórir, enda sé sorphirða á Akureyri mjög dýr, með þeim dýrustu á landinu en m.a. þarf að fara með sorpið um langan veg úr bænum og á förgunarstað á Sölvabakka, sem er skammt utan við Blönduós.

Íslenska gámafélagið sinnir viðamiklu verkefni á sviði sorphirðu um land allt og nær þjónustan til um 60 þúsund heimila og 3 þúsund fyrirtækja, en fyrirtækið er eitt hið stærsta hér á landi sem starfar við losun og förgun úrgangs og endurvinnslu. Fyrirtækið var stofnað árið 1999, m.a. í þeim tilgangi að auka samkeppni á því sviði atvinnulífsins sem snýr að sorphirðu. „Við höfum trú á því að við getum veitt ódýrari þjónustu og munum bjóða upp á hana þegar við komum okkur fyrir á nýjum stað,“ segir Jón Þórir.

Nýjast