Stefnir á að opna brugghús á Húsavík

Þorsteinn Snævar Benediktsson hyggur á opnun brugghúss næsta sumar á Húsavík. Mynd/epe
Þorsteinn Snævar Benediktsson hyggur á opnun brugghúss næsta sumar á Húsavík. Mynd/epe

Nýtt húsvíkst brugghús gæti verið á næsta leiti ef áætlanir Þorsteins Snævars Benediktssonar ganga eftir.

Hann hefur lengi verið mikill áhugamaður um bjór og hefur unnið á veitingahúsum um all nokkurt skeið. Þorsteinn heillaðist af bjórmenningunni í Austurríki þegar hann var þar á ferðalagi fyrir nokkrum árum og ákvað að kynna sér hana nánar. Í samtali við Vikudag segist Þorsteinn hafa furðað sig á því að þessi menning væri ekki jafn sterk hér á landi. „Ég ákvað að skella mér til Englands í nám í bjórgerð og er því menntaður bjórgerðarmaður,“ segir þessi ungi frumkvöðull og bætir við: “Ég er að vinna í því að finna húsnæði undir þetta og ætla í kjölfarið að fara fleyta þessu af stað.“

Þorsteinn lærði fagið í Sunderland á Englandi í skóla sem kallast „Brew Lab“ en það er samstarfsverkefni háskólanna í Sunderland og Newcastle. Hann er útskrifaður sem „micro brewer“ en það jafngildir diplómu til bruggmeistara.

Þorsteinn gerði það gott í Sunderland og vann m.a. til verðlauna í keppni ölgerðarnemenda þar í borg. Verðlaunin hlaut hann fyrir þurrhumlaðan greni IPA

Jákvæð viðbrögð hafnanefndar

Hafnanefnd Norðurþings tók í vikunni fyrir ósk frá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga fyrir hönd Þorsteins um að leigja verbúðarbil við Hafnarstétt. Þar stefnir Þorsteinn á að koma sér upp aðstöðu til bjórgerðar, náist samkomulag um leiguna og framkvæmdir á húsnæðinu.

Hafnanefnd tók jákvætt í erindið og hefur felið hafnastjóra að hefja viðræður við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og Þorstein um útfærslu á samningi og leggja hann fyrir nefndina.

Þorsteinn segir að verkefnið sé á því stigi að finna hentugt húsnæði, þegar það liggur fyrir þurfi að útvega öll þau leyfi og vottanir sem þarf fyrir slíkan rekstur . „Kröfurnar eru svolítið strangar,  ekkert ósvipað veitingahúsum að því leytinu . Þannig að það er talsvert verk fyrir höndum,“ segir hann.

Aðspurður um hvenær hann hyggist hefja framleiðsu segir hann það fara eftir því hvenær hann fái húsnæði. „Ég er að vonast til að geta byrjað á framkvæmdum í september- október og get þá byrjað að selja bjór næsta sumar. Ég stefni á það,“ segir Þorsteinn Snævar Benediktsson bjórgerðarmaður.

Nýjast