Hugbúnaðarfyrirtækið Theriak ehf. hefur sagt upp öllum 20 starfsmönnum sínum hér á landi og hafa þeir þegar látið af störfum. Fyrirtækið var með starfsstöðvar bæði í Reykjavík og á Akureyri en um helmingur starfsmanna starfaði á Akureyri. Þá hefur verið óskað eftir því að fyrirtækið verði tekið til gjaldþrotaskipta, samkvæmt heimildum Vikudags. Theriak framleiddi hugbúnað fyrir sjúkrahús og var um 95% af veltu fyrirtækisins erlendis.
Samkvæmt heimildum Vikudags, stendur til að endureisa fyrirtækið og bjóða hluta þeirra starfsmanna sem sagt var upp, að halda áfram. Theriak er í eigu íslenskra og breskra aðila og skráð á Íslandi en með starfsemi víðar í Evrópu.