Starfsmenn landsbyggðarsveitarfélaga 2. flokks?
„Er skrítið þó við spyrjum hvort starfsmenn sveitarfélaga á landsbyggðinni séu annars flokks íbúar í þessu landi?“ Þannig spyr stjórn Einingar Iðju í ályktun frá því fyrr í dag þar sem fjallað er um að ekki komi til greina að samið verði um lakari kjör til handa starfsólki sveitarfélaga en í þeim samningum sem gerðir hafa verið undanfarið. Greinargerð og rök Einingar-Iðju fyrir þessari spurningu koma fram í ályktuninni sem er svohljóðandi:
Ályktunin í heild:
Samninganefnd Einingar-Iðju, í samningum við samninganefnd sveitarfélaga, telur ekki koma til greina að samið verði um lakari kjör en gert hefur verið við aðra aðila á vinnumarkaði að undanförnu. Staðan sem upp er komin í samningaviðræðum er með öllu óásættanleg. Að ekki eigi að fylgja þeirri leið sem farin hefur verið í öðrum samningum, þar sem samið var á grundvelli samræmdrar launastefnu og reynt að auka kaupmátt launafólks með áherslu á að hækka lægstu laun.
Samninganefnd sveitarfélaga telur að sveitarfélögin þurfi ekki að fylgja þessari stefnu. Þetta þýðir að á sama tíma og verið er að hækka laun á almenna markaðinum og hjá ríkinu um 34.000 kr. þ.e. til febrúar/mars 2014, fær starfsmaður sveitarfélags utan höfuðborgarinnar, t.d. á leikskóla og grunnskóla kr. 20.158. Vert er að benda á að Reykjavíkurborg samdi við Eflingu á grundvelli samræmdrar launastefnu.
Er skrítið þó við spyrjum hvort starfsmenn sveitarfélaga á landsbyggðinni séu annars flokks íbúar í þessu landi?