Starfshópur skipaður vegna alvarlegrar stöðu svartfuglastofna
Starfshópurinn er skipaður vegna alvarlegrar stöðu svartfuglastofna hérlendis. Honum er ætlað að fjalla sérstaklega um veiðar og nýtingu svartfugls og hvort breytingar á lögum eða reglum er varða nýtingu á svartfugli, þar með talinni eggjatöku, geti komið að gagni við endurreisn svartfuglastofna og þá með hvaða hætti það megi verða. Veruleg fækkun hefur verið í nokkrum stofnum sjófugla undanfarin misseri og segja má að hrun hafi verið í lundastofninum. Lélegur varpárangur hefur verið hjá lunda, sérstaklega á sunnanverðu landinu sl. 4-5 ár og í fyrra varð algjör viðkomubrestur í lundavarpi á Suðurlandi. Stuttnefju hefur fækkað um allt land og álku og langvíu um sunnan- og vestanvert landið, en stofnar þeirra hafa haldið nokkuð í horfinu um norðanvert landið.
Orsakir fækkunar og viðkomubrests sjófugla virðast að mestu leyti vera fæðuskortur, en fuglarnir lifa einkum á sandsíli og loðnu. Hrun varð
á sandsílastofninum árið 2000 og hefur hann ekki náð sér á strik síðan en loðnustofninn hefur verið í lægð sl.
áratug. Veiðar á sjófuglum hafa ekki verið taldar hafa veruleg áhrif á fækkun stofna þeirra, en eru hins vegar sá þáttur sem
mest er hægt að hafa áhrif á til að milda áfallið.
Í starfshópnum sitja: Sigurður Á. Þráinsson, formaður, umhverfisráðuneyti, Menja von Schmalensee, skipuð án tilnefningar,
Guðbjörg H. Jóhannesdóttir, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands, Guðmundur A. Guðmundsson tilnefndur af Náttúrufræðistofnun
Íslands, Steinar Rafn Beck Baldursson tilnefndur af Umhverfisstofnun Sæunn Marinósdóttir, tilnefnd af Skotveiðifélagi Íslands. Hópnum er
ætlað að skila tillögum sínum til umhverfisráðuneytisins eigi síðar en 31. október 2011. Þetta kemur fram í
fréttatilkynningu.