Starfsemi nýrrar dag- og göngudeildar geðdeildar FSA hefst í október

Starfsemi nýrrar dag- og göngudeildar geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri hefst í húsnæði Sels 1. október n.k. Yfirlæknir deildarinnar verður Árni Jóhannesson yfirlæknir núverandi göngudeildar geðdeildar FSA. Gert er ráð fyrir að hefðbundin göngudeildarstarfsemi, greiningar- og meðferðarviðtöl, geti þá hafist af fullum krafti með sama sniði og nú er.  

Vinnuhópur, sem framkvæmdastjórn sjúkrahússins skipaði, starfar nú að skipulagningu  á fyrirkomulagi dagþjónustunnar. Einhugur er um að hún verði byggð á gagnreyndum aðferðum og árangursmælingum. Stefnt er að því að fjölbreytt hópmeðferð verði helsta meðferðarformið í dagþjónustunni. Vonir standa til að hægt verði að hefja þennan þátt starfseminnar samtímis, en ljóst er að meðferðarstarfið þarf góðan tíma til aðlögunar og þróunar. Rekstur dag- og göngudeildar mun gera kleift að nýta starfskrafta á annan hátt en áður og lækka m.a. stjórnunarkostnað. Þannig verður unnt að draga úr þeirri skerðingu á þjónustu sem fækkun stöðugilda veldur. Það er von forsvarsmanna spítalans að þessar ráðstafanir ásamt fjölmörgum öðrum verði til þess að hægt verði að reka áfram góða heilbrigðisþjónustu á FSA.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá framkvæmdastjórn og stjórnendum í lækningum og hjúkrun á geðdeild sjúkrahússins og send var út fyrir stundu, vegna umfjöllunar undanfarnar vikur um þjónustu Sjúkrahússins á Akureyri, m.a. um þjónustu geðdeildar sjúkrahússins. Eins og fram hefur komið hefur verið ákveðið að hagræða í starfsemi geðdeildar. Geðdeildin hefur undanfarin ár skipst í þrjár starfseiningar; bráðalegudeild á jarðhæð aðalbyggingar sjúkrahússins frá 1986 með 10 sólarhringsrýmum og um 250 innlögnum á ári, dagdeild að Skólastíg 7 frá 1996 þar sem 30 til 40 sjúklingar á ári hafa fengið sérhæfða meðferð og endurhæfingu og göngudeild í aðalbyggingu sjúkrahússins frá 2001 þar sem um 700 einstaklingar hafa fengið greiningu og meðferð árlega. Sérfræðingar deildarinnar sinna einnig sjúklingum á bráðamóttöku og öðrum deildum sjúkrahússins. Legudeild og göngudeild hafa samnýtt starfsfólk og húsnæði á þriðju hæð aðalbyggingar.

Vegna fjárhagsstöðu FSA sem m.a. er tilkomin vegna endurskoðaðra fjárlaga sem samþykkt voru í ljósi aðstæðna hér á landi, s.l. desember, þarf að útfæra sparnaðarleiðir upp á 250 - 300 milljónir króna. Einn þáttur í þeim aðgerðum var ákvörðun um að loka dagdeild geðdeildar og opna síðar á árinu nýja dag- og göngudeild geðdeildar í því húsnæði sem hjúkrunardeildin Sel var í áður.  Það húsnæði býður upp á mun meiri möguleika á þróun dagdeildarþjónustu en húsnæðið að Skólastíg 7.  Húsnæðið að Skólastíg 7 verður selt og andvirði þess notað til að laga húsnæði Sels að nýrri starfsemi. Stjórnendum lækninga og hjúkrunar á geðdeildinni var ljóst  að ekki yrði hægt að undanskilja geðdeildina sparnaðarkröfum, þótt sterkar líkur væru á að eftirspurn eftir þjónustu deildarinnar myndi aukast á næstu misserum vegna vaxandi atvinnuleysis, því féllust þeir á að vinna með framkvæmdastjórninni að útfærslu á þessum sparnaðar-  og hagræðingaraðgerðum. Aðrar sparnaðarleiðir voru taldar mundu skerða bráðaþjónustu deildarinnar, sem bar að verja.

Lækkun á rekstrarkostnaði geðdeildar er fyrst og fremst fólginn í fækkun stöðugilda og samnýtingu starfsmanna. Með þessum aðgerðum er áætlað að rekstrarkostnaður lækki um  6-7 milljónir króna  árið 2009 og  17-18 milljónir króna  árið 2010. Þeim sjúklingum sem fengið höfðu vilyrði um vist á dagdeildinni í febrúar 2009 var beint aftur til tilvísandi lækna, sem ber að veita þeim úrlausn á vanda sínum í bið eftir meðferðarúrræði á nýrri deild.

Nýjast