Starfrækja á móttöku fyrir brotajárn og hjólbarða á Óseyri
Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi Bæjarlistans og fulltrúi flokksins í skipulagsnefnd greiddi atkvæði á móti afgreiðslu málsins á síðasta fundi nefndarinnar. Sigurður segir að það sé ekki hægt að bjóða íbúum í næsta nágrenni upp á starfsemi af þessu tagi. Breyti þá engu þótt svæðið sé skilgreint sem athafnasvæði. "Okkur er í lófa lagið að hafa áhrif á það hvaða starfsemi fer þarna fram. Það er mjög óeðlilegt að þarna verði farið að pressa járnarusl, í rúmlega 100 metra fjarlægð frá íbúðabyggð og ég er ósáttur við það."
Sigurður segir að bærinn hafi ekki virt vilja íbúa á þessu svæði hingað til og vísar þar til byggingu fjölbýlishúss við Undirhlíð. Harðar deilur hafi orðið vegna þeirra framkvæmda á sínum tíma. "Maður hefði nú haldið að nóg væri komið og með þessari ákvörðun nú er verið að virða vilja íbúa að vettugi. Ég hef orðið var við mikla óánægju meðal íbúa á svæðinu og veit til þess að hverfisnefnd Holta- og Hlíðarhverfis hefur látið málið til sín taka," segir Sigurður.
Hann segir í þessu húsnæði sé starfsemi Ekru, sem selur matvæli, og því spyrji menn sig jafnframt að því hvort það fari saman að vera með dreifingu á matvöru og móttöku á rusli í sama húsi. "Ég er ekki að sjá að það fari saman. Menn hafa ekki velt þessu nógu vel fyrir sér og ég er ekki sáttur við svona vinnubrögð. Þetta ber keim af þeim mistökum sem gerð hafa verið í sambandi við stækkun á húsnæði Vínbúðarinnar við Hólabraut, í óþökk íbúanna."
Sigurður segir að þessi starfsemi sem Fura hyggst fara af stað með við Óseyri þurfi starfsleyfi. "Ég veit ekki hvort málið er afgreitt en menn eru alla vega byrjaðir að safna þarna járnarusli. Þá veit ég heldur ekki til þess að fjallað hafi verið um málið í umhverfisnefnd, sem einnig kemur að þessum málum. Það vantar að málin séu skoðuð frá öllum hliðum áður en ákvarðanir eru teknar."