Stál í stál í húsgrunni í Naustahverfi á Akureyri

Óhætt er að segja að það hafi verið stál í stál í baráttu tveggja verktaka um möl í húsgrunni í Naustahverfi á Akureyri eftir hádegi í dag. Þá mátti litlu muni að ung kona slasaðist þegar hún stóð fyrir stórri skóflu á beltagröfu og reyndi þannig að koma í veg fyrir að hægt væri að moka mölinni upp úr húsgrunninum.  

Starfsmenn verktakafyrirtækisins GV grafa á Akureyri voru að reyna að sækja möl í húsgrunninn, sem þeir höfðu keyrt í grunninn á síðasta ári en ekki fengið greitt fyrir. Reyndar var um tvo húsgrunna að ræða en eigandi þeirra gat ekki greitt GV gröfum fyrir verkið. Sparisjóður Siglufjarðar eignaðist síðar húsgrunnana og seldi þá Stefáni Einarssyni verktaka og það án kvaða, að sögn Stefáns. Hann reyndi að koma í veg fyrir að starfsmönnum GV grafa tækist að moka mölinni upp úr öðrum húsgrunninum fyrr í dag og notaði við það 30 tonna beltagröfu. Starfsmaður GV grafa notaði samskonar beltagröfu til að halda aftur af gröfu Stefáns, á meðan önnur beltagrafa í eigu GV grafa hóf að moka möl á efnisflutningabíl fyrirtækisins. Þá kom til sögunnar dóttir Stefáns, sem reyndi að stöðva verkið með því að standa fyrir skóflunni sem fyrr segir. Fljótlega kom lögreglan á staðinn, í kjölfarið róaðist ástandið og eru menn nú að fara yfir stöðuna.

Það var eldsnemma í gærmorgun sem starfsmenn GV grafa mættu með girðingar til girða af svæðið, efnisflutningabíla og gröfur til að sækja mölina í húsgrunninn. Stefán mætti skömmu síðar til að stöðva þær aðgerðir og þá kom lögreglan einnig á svæðið. Í dag reyndu starfsmenn GV grafa svo aftur að ná mölinni og tókst að moka nokkrum skóflum upp á bíla áður en aðgerðin var stöðvuð.

Sjá fleiri myndir undir ljósmyndir; Stál í stál.

Nýjast