Jarðskjálfti í Grímsey í morgun sem talið var að væri 4,6 stig reyndist vera 5,2 stig og er þetta stærsti skjálftinn sem hefur mælst við Grímsey síðan jarðskjálftahrinan hófst. Fólk fann skjálftann víða og allt vestur í Skagafjörð segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir á jarðvársviði Veðurstofu Íslands.
Salóme segir að starfsfólk jarðvársviðs muni funda með Almannavörnum fljótlega þar sem farið verður yfir stöðuna. Hún segir að mjög margir skjálftar hafi mælst og var jarðskjálftahrinan mjög öflug frá því um hálfsex í morgun þangað til rúmlega sjö.
Grímseyingum hefur almennt ekki verið svefnsamt í nótt enda hafa fjölmargir stórir skjálftar riðið yfir. Undanfarna tvo sólarhringa hafa 1.536 jarðskjálftar riðið yfir á þessum slóðum, norðaustur af Grímsey, og af þeim eru 65 yfir þrír að stærð, segir í frétt mbl.is.