Staðfesta aðild en krefjast hækkunar á daggjöldum til ÖA frá ríkinu

Bæjarráð Akureyrar staðfesti á síðasta bæjarráðsfundi að sveitarfélagið muni eiga aðild að samkomulagi sem Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa gert við Sjúkratryggingar um þjónustu á hjúkrunar- og dvalarrýmum hjúkrunarheimila. Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa lengi líst yfir ónánægju með að fjármunir frá ríkinu dugi á engan hátt fyrir rekstri hjúkrunarheimila.  Bæjarráð fagnar samningnum í bókun og telur að með þessu samkomulagi sé stigið spor í rétta átt.

Akureyrarbær áréttar þó að þrátt fyrir aðild að samkomulagi þessu þá áskilji bærinn sér fullan rétt til að sækja áfram þá fjármuni sem bærinn hefur þurft að leggja með rekstri ÖA síðustu ár. Þá bendir bæjarráð á að þrátt fyrir þá hækkun sem með þessu samkomulagi fylgir, þá dugir hún engan veginn fyrir rekstrarkostnaði ÖA og því þarf bærinn að leggja til verulega fjármuni með rekstrinum áfram.

„Það er með öllu óásættanleg staða og því krefst bæjarráð þess að áfram verði unnið að því að hækka daggjöld ríkisins og húsnæðisgjöld þannig að þau dugi fyrir daglegum og eðlilegum rekstri ÖA. Liður í því að ná samkomulagi sem getur verið grunnur að réttlátum greiðslum vegna öldrunarþjónustunnar er að í fyrirliggjandi drögum að kröfulýsing sé skilgreining á því hvað telst eðlileg mönnun, en launakostnaður er langstærsti útgjaldaliðurinn í rekstri ÖA. Húsnæðisgjöld eldri heimila þarf að reikna til jafns við þau nýrri þannig að eðlilegt viðhald og endurnýjun geti átt sér stað,“ segir í bókun.

Nýjast