"Auðvitað er ekki gleðilegt að þurfa að kynna svona rekstrarniðurstöðu, sérstaklega í ljósi þess að áður en hrunið átti sér stað stefndi í að hagnaður félagsins á síðasta ári yrði um hálfur milljarður króna. Bankahrunið og það sem á eftir kom hafði umtalsverð áhrif á okkar uppgjör. Það gerðist með niðurfærslu skuldabréfa sem við áttum á þessa föllnu banka og svo færðum við niður eignarhluti okkar í fyrirtækjum. Við förum mjög varfærnislega í þetta, reynum að nálgast rétt mat og endurspegla sannvirði eigna í okkar bókum. En það er mikil óvissa sem umlykur allt þessa dagana og við erum ekkert undanskilin því."
Sterk lausafjárstaða
Halldór segir ekki útilokað, að ef krónan styrkist frá því sem nú er gæti komið til þess að niðurfærsluþörfin yrði minni sem þýddi þá hugsanlega tekjufærslu á þessu rekstrarári. "Við vorum fyrst og fremst að spila varnarleik á síðasta ári, halda félaginu skuldlitlu og lokuðum skortstöðum. Við lögðum áherslu á að viðhalda sterkri lausafjárstöðu, seldum okkur út úr peningamarkaðs- og verðbréfasjóðum og eftir fall vorum við í slagsmálum við að vernda eignir félagsins, sem ég tel að hafi tekist ágætlega. Þrátt fyrir þetta tap er staða KEA sterk að mínu mati, við erum með rúmlega 90% eiginfjárhlutfall, skuldum nánast ekkert og erum því ekki að lenda í greiðsluerfiðleikum. Við höfum sterka lausafjárstöðu, með rúmlega tvo milljarða í lausu fé, það eru ekki mörg félög af þessari gerð í þeirri stöðu og reyndar flest farin yfir móðuna miklu. Rúmlega helmingur af okkur eigin fé er laust fé, þannig að við höfum getu til að hreyfa okkur og fjárfesta og ætlum okkur að gera það" segir Halldór.
Á aðalfundi KEA árið 2007 kom fram vilji til þess að félagið tæki meiri áhættu í sínum rekstri. Félagið jók þá stöðu sína í skráðum hlutabréfum en haustið 2007 voru hins vegar blikur á lofti og segir Hallldór að þá hafi verið gengið í að selja hlutabréf. Það hafi reynst happadrjúg ákvörðun, sem og sú ákvörðun að losa alla fjármuni félagsins út úr penningamarkaðs- og verðbréfasjóðum á síðasta ári. "Við færðum þetta m.a. yfir í bein innlán. En við áttum bankaskuldabréf sem voru með sama lánshæfismat og íslenska ríkið og töpum fjármunum á þeim en það gat ekki nokkur maður áttað sig á því að þessi bankaskuldabréf myndu rýrna jafn mikið og raun bar vitni á einni nóttu með setningu neyðarlaganna."
Góðir hlutir gerast hægt
KEA hefur starfað við fjárfestingar frá árinu 2001, þegar félagið gekk í gegnum mikla endurskipulagningu. Halldór segir alveg ljóst að þetta hrun í fyrra gjörbreyti forsendum fyrir því að starfa á þeim markaði. "Við fórum í stefnumótunarvinnu á síðasta ári og svo aftur í byrjun þessa árs, þar sem niðurstaðan var sú að við ætlum að nýta fjárfestingargetu félagsins á þann hátt að færa okkur yfir í kjarnastarfsemi. Sem þýðir að við ætlum að færa okkar lausa fé í fjárfestingu í einni starfsgrein og hafa þá starfsgrein innan okkar samstæðu og reka til hliðar við okkar núverandi eignasafn. Þetta er töluverð breyting og verkefnið nú snýst um að finna áhugaverða valkosti."
Halldór vildi ekki fara nánar út í það á þessari stundu, hvað menn væru helst að skoða en sagði að búið væri að þrengja möguleikana og að helst væri horft á þrjú lykilatriði. "Í fyrsta lagi að slík starfsemi hafi eins mikla héraðslega tengingu og unnt er og nýtist svæðinu sem best. Í öðru lagi viljum við að félagsmenn geti átt bein viðskipti við þetta fyrirtæki, sem við annað hvort kaupum eða setjum á laggirnar. Þannig náum við upp þátttökunni í KEA í gegnum bein viðskipti félagsmanna við félagið. Í þriðja lagi stefnum við á að hagsmunir félagsmanna af því að skipta við þetta fyrirtæki verði einsleitir og nýtist öllum félagsmönnum jafnt. Það þýðir að við munum að öllum líkindum leita fyrir okkur í einhverskonar neytendatengdri starfsemi, því öll erum við jú neytendur."
Halldór segir að það sé mjög erfitt að fjárfesta í allri þeirri óvissu sem við búum við í þjóðfélaginu í dag. "Ég sagði á aðalfundinum og get endurtekið það hér, að góðir hlutir gerast hægt. Okkur liggur ekkert á, við erum gamalt félag, verið til frá árinu 1886 og ætlum því ekki að rjúka upp til handa og fóta nú og ógna tilvisst félagsins með glannalegum ákvörðunum í miklu óvissuástandi. Það á aldrei að standa að fjárfestingum undir tímapressu, komist menn á annað borð hjá því. Við munum eins og áður, vanda vel til verka, sem vonandi leiðir til þess að okkur takist að kaupa til okkar áhugaverða starfsemi eða að standsetja nýja starfsemi. KEA er eins og mörg fyrirtæki á ákveðnum krossgötum og miðað við aðstæður og þetta krefjandi rekstrarumhverfi, getur framtíð félagsins verið nokkuð björt," sagði Halldór.
Trúum því að við höfum verið að gera rétt
KEA á eignaraðild að fjölmörgum fyrirtækjum og segir Halldór að á síðustu árum hafi tekist að framfylgja meginhugmyndafræði og tilgangi félagsins mjög vel. "Við höfum ekki verið á kafi í skuldsettum hlutabréfastöðum, heldur viljað hafa laust fé og traustan efnahag til að geta fjárfest í þeim verkefnum sem við teljum að mæti okkar grundvallarsjónarmiðum. Við erum í langhlaupi, ekki spretthlaupi. Við höfum fjárfest í fyrirtækjum á svæðinu, sem hefur gert það að verkum að þau eru sjálfstæð og með höfuðstöðvar og eignarhald hér. Ég vil að meina það ef KEA væri ekki til staðar, væru hér færri aðalstöðvar en fleiri útibú en raun ber vitni og finnst mörgum þó nóg um. Við höfum unnið gegn því að útibúavæðingin yrði algjör og jafnframt komið að því að byggja upp ný fyrirtæki. Flest allar okkar eignir eru einmitt í fyrirtækjum hér svæðinu."
Halldór segir að tónninn gagnvart KEA sé afar góður í samfélaginu og hann skynjar mikinn meðbyr, enda eru félagsmenn orðnir tæplega 16.000 talsins. Þá sé mjög góður rómur gerður að KEA kortinu, bæði hjá félagsmönnum og samstarfsaðilum, enda kortið mikið notað. " Neikvæð umræða gagnvart KEA hefur heyrt til undatekninga og verið bundin mjög fáum aðilum, sem betur fer. Allar viðhorfskannanir gagnvart félaginu síðustu ár hafa skilað gríðarlega jákvæðum niðurstöðum og mun betri en hjá öðrum fyrirtækjum sem láta mæla slíkt. Við leyfum okkur því að trúa að við höfum verið að gera eitthvað rétt og lítum á þetta sem hvatningu til að halda áfram á markaðri braut."