SR skellti Víkingum í Skautahöllinni

SR gerði góða ferð norður yfir heiðar er liðið sótti SA Víkinga heim á Íslandsmóti karla í íshokkí í kvöld. Liðin mættust í Skautahöll Akureyrar þar sem lokatölur urðu 2-6 fyrir gestina. SR hafði 2-0 forystu eftir fyrstu lotu með mörkum frá Daniel Kolar og Agli Þormóðssyni. Eitt mark var skorað í annarri lotu og það gerði Robbie Sigurðsson fyrir SR og því vænleg staða gestana fyrir þriðju og síðustu lotu.

Ragnar Kristjánsson kom SR í 4-0 þegar um stundafjórðungur var eftir en Orri Blöndal gaf SA líflínu er hann minnkaði muninn með marki skömmu síðar. Gauti Þormóðsson gerði svo endanlega út um leikinn með tveimur mörkum um miðja þriðju lotu, en Josh Gribben náði að klóra í bakkann fyrir SA með marki á lokamínútunni og lokatölur 2-6.

SR fer upp í annað sætið með sigrinum en liðið hefur sex stig eftir tvo leiki. SA Víkingar hafa þrjú stig eftir þrjá leiki og fara Íslandsmeistararnir brösulega af stað en liðið saknar enn nokkurra lykilmanna.

Nýjast