Spurt um ráðningu forstöðumanns nýrrar Sjónlistamiðstöðvar

Guðrún Þórsdóttir fulltrúi V-lista í stjórn Akureyrarstofu spurði á fundi stjórnar í vikunni  hvers vegna ráðning nýrrar stöðu forstöðumanns nýrrar stofnunar bæjarins, sjónlistamiðstöðvarinnar, hafi ekki verið afgreidd á fundi stjórnar Akureyrarstofu. Framkvæmdastjóri Akureyrarstofu svaraði því til að málinu hafi verið lokið á fundi stjórnarinnar 6. október 2011. Þá var bókað að framkvæmdastjóra væri falið að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður á fundinum.

Það fól í sér að samkomulag var um hver yrði ráðinn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði snerust annars vegar um tímabundna ráðningu og hins vegar um viðveruskyldu þar sem umsækjandinn sem fyrir valinu varð heldur tvö heimili. Bókunin frá 6. október var því ekki nægilega nákvæm um málalok, segir í bókun frá fundi stjórnar Akureyrarstofu.

Á fundinum var einnig farið yfir stöðuna á vinnu við sameiningu Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili og Listasafnsins á Akureyri. Hannes Sigurðsson verðandi forstöðumaður sjónlistamiðstöðvarinnar kom á fundinn og gerði ásamt framkvæmdastjóra Akureyrarstofu grein fyrir stöðu mála. Rætt um nafn á hina nýju miðstöð, auglýsingar um störf og þau verkefni sem lögð hafa verið upp á fyrstu misserum sjónlistamiðstöðvarinnar. Stjórn Akureyrarstofu samþykkir þá tillögu sem fram kom á fundinum að nýja menningarmiðstöðin verði framvegis kölluð Sjónlistamiðstöðin.

Nýjast